Innlent

Fullyrða að verkfallsbrot hafi verið framin á City Park hótelinu: „Endilega kærðu þetta“

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Árni Valur Sólonsson, eigandi City Park Hotel þvertekur fyrir verkfallsbrot hafi verið framin á hans vakt. Ljósmyndin var tekin fyrir skömmu þegar atkvæðagreiðsla um verkfall fór fram.
Árni Valur Sólonsson, eigandi City Park Hotel þvertekur fyrir verkfallsbrot hafi verið framin á hans vakt. Ljósmyndin var tekin fyrir skömmu þegar atkvæðagreiðsla um verkfall fór fram. vísir/vilhelm
Nokkrir verkfallsverðir og þar á meðal Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, fullyrða að verkfallsbrot hafi verið framin á City Park hótelinu.

Blaðamaður náði tali af Sólveigu og nokkrum verkfallsvörðum á Suðurlandsbraut þegar þau voru á leiðinni frá hótel Nordica og á næsta hótel til að gæta að því að allt sé í samræmi við lög um stéttarfélög og vinnudeilur.

„Endilega kærðu þetta vegna þess að við viljum fá úr því skorið“

Þegar fullyrðingin var borin undir Árna Val Sólonsson, eiganda Citi Park – hótelsins þvertók hann fyrir að vera verkfallsbrjótur. Hann segir að þessa stundina séu tveir ófélagsbundir starfsmenn að þrífa á hótelinu.

„Ég sagði við hann [verkfallsvörðinn] endilega kærðu þetta vegna þess að við viljum fá úr því skorið. Þetta er ekki verkfallsbrot. Efling á ekki störfin. Það er stjórnarskrárvarinn réttur fólks að vera ekki félagsbundinn.“

Árni segir að forysta Eflingar haldi að þau eigi störfin.

„Hann [verkfallsvörðurinn] sagðist eiga störfin hérna. Ég hélt nú ekki og sagðist eiga þau sjálfur. Ég skapaði þau og sá sem getur lagt þau niður, hann á þau. Ég get lagt störfin niður en ekki Efling og þar af leiðandi hlýt ég að eiga störfin.“

En gilda ekki lög um verkföll í landinu?

„Jújú, verkfallslögin eru þau að félagsbundnir menn eiga ekki að vinna og það er enginn félagsbundinn að vinna hérna hjá mér. Það er enginn meðlimur í Eflingu að vinna hjá mér,“ segir Árni og bætir við:

 „Það er bara ágreiningur um þetta á milli SA og þeirra. Það er bara þannig. Það eru hérna tveir ófélagsbundnir starfsmenn sem eru að vinna. Það er allt og sumt. Það er það sem hann heldur að sé verkfallsbrot.“


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×