Innlent

Djarfari verkfallsbrot vegna skilaboða frá atvinnurekendum

Sighvatur Jónsson skrifar
Formaður Eflingar telur að Samtök atvinnulífsins hafi sent skilaboð til atvinnurekenda um að láta reyna á verkfallsbrot í aðgerðum gærdagsins. Atvinnurekendur segjast þvert á móti hvetja sitt fólk til að hlýta lögum um vinnudeilur.

Fulltrúar Eflingar og annarra verkalýðsfélaga hafa í dag undirbúið næsta sáttafund sem er á mánudag.

Formaður Eflingar, Sólveig Anna Jónsdóttir, segir að meira hafi verið um verkfallsbrot í gær heldur en búist hafi verið við. Hún telur að Samtök atvinnulífsins hafi eitthvað komið þar að málum.

„Við lítum svo á að skilaboðin sem hafi verið send út í samfélagið og til atvinnurekenda hafi verið með þeim hætti að fólk hafi verið djarfara að láta á þetta reyna,“ segir Sólveig Anna.

Framkvæmdastjóri Samtaka atvinnulífsins, Halldór Benjamín Þorbergsson, segir að samtökin hafi hvatt félagsmenn sína til að hlýta lögum um stéttarfélög og vinnudeilur í einu og öllu. Ágreiningsefnum um túlkun laga eigi að skjóta til Félagsdóms í stað þess að kveða upp dóm í fjölmiðlum.

Síðasti sáttafundur á fimmtudag var fram á kvöld og gert er ráð fyrir að fundurinn hjá ríkissáttasemjara á mánudag verði langur.

„Það er öllum ljóst að það er vilji fyrir hendi til þess að sjá hvað við getum látið gerast. Við skulum reyna að vera jákvæð og vongóð,“ segir Sólveig Anna.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×