Innlent

Formaður Samfylkingarinnar undrast framgöngu lögreglu á Austurvelli

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Mótmælendur voru ekki sáttir við að lögreglumenn fjarlægðu tvö tjöld sem þeir hugðust tjalda á Austurvelli.
Mótmælendur voru ekki sáttir við að lögreglumenn fjarlægðu tvö tjöld sem þeir hugðust tjalda á Austurvelli. Vísir/Vilhelm
Logi Einarsson, formaður Samfylkingarinnar, er undrandi á viðbrögðum lögreglu gagnvart hópi mótmælenda á Austurvelli í dag. Hópurinn hefur óskað eftir fundi með forsætisráðherra og dómsmálaráðherra til að ræða meðferð hælisleitenda hér á landi. Voru mótmælin í dag þau fjórðu undanfarnar vikur.

„Í dag varð ég vitni að óvenju harkalegum viðbrögðum lögreglu, gagnvart hóp í afar veikri stöðu, sem hugðist tjalda á Austurvelli og vekja athygli á málstað sínum,“ segir Logi.

Lögreglumenn fjarlægðu tvö tjöld mótmælenda um þrjúleytið en mótmælendur hugðust hafast við á Austurvelli fram á kvöld. Í framhaldinu notaði lögregla piparúða og handtók tvo mótmælendur. Þeim var sleppt af lögreglustöðinni á Hverfisgötu í kvöld en þá höfðu mótmælin færst fyrir framan lögreglustöðina. Þeim lauk þegar seinni mótmælandanum var sleppt.

„Ég minnist ekki að tiltölulega fámennum mótmælum hafi áður verið mætt með slíkum aðgerðum. Ég sá a.m.k. ekkert sem gaf tilefni til slíks,“ segir Logi og gagnrýnir Sigríði Á. Andersen dómsmálaráðherra.

„Þetta bætist við sífelldar þrengingar reglugerða dómsmálaráðherra í málefnum hælisleitenda og flóttamanna og boðað frumvarps hennar um sömu hópa, sem eru mikil afturför. Er nema von að maður spyrji á hvað leið stjórnvöld eru og hvort hún sé farin með samþykki VG?“Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.