Innlent

Fá ekki afslátt á hitaveitunni

Garðar Örn Úlfarsson skrifar
Frá Laugalandi.
Frá Laugalandi. fréttablaðið/Veitur
Veitur ætla ekki að verða við áskorun sveitarstjórna í Rangárþingi ytra og Rangárþingi eystra um að lækka hitaveitureikninga íbúa á svæðinu.

„Sveitarstjórn harmar að Veitur skuli ekki samþykkja að koma til móts við íbúa sem þurftu að greiða margfalda hitaveitureikninga vegna vandræða Veitna við afhendingu á heitu vatni undanfarið og skorar á Veitur að endurskoða þá ákvörðun,“ bókar sveitarstjórn Rangárþings ytra vegna málsins.

Segist sveitarstjórnin leggja mikinn þunga á að Veitur setji mun meiri kraft í öflun á heitu vatni fyrir vaxandi byggð. „Skoða ber alla möguleika í þeim efnum m.a. að sækja heitt vatn frá vesturbakka Þjórsár þar sem nægar uppsprettur virðast vera.“

Á fundi fulltrúa sveitarfélaganna með fulltrúum Veitna kom fram að eftirspurn eftir heitu vatni jókst um 9 prósent milli 2017 og 2018. Ekki hafi gengið vel að anna þessari eftirspurn. „Á fundinum kom fram að Veitur munu ekki taka á sig hluta kostnaðar vegna hærri reikninga sem hluti íbúa fékk síðastliðið haust,“ segir í minnisblaði af fundinum.

Sveitarfélögin segja ástæðu hækkandi heitavatnsreikninga meiri notkun vegna lækkandi hitastigs á vatninu en Veitur segja ástæðuna fyrst og fremst kaldara veður í fyrra en árið 2017. „Í Rangárþingi miða Veitur við að lágmarkshiti til afhendingar í dreifbýli sé 50 gráður en 55 gráður í þéttbýli. Hitastig í Reykjavík inn í hús er að minnsta kosti 60 gráður en misjafnt eftir hverfum, hiti út úr kerfi í Reykjavík er um 80 gráður,“ segir í minnisblaðinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×