Innlent

Samþykktu að leiðin um Teigsskóg verði auglýst

Kristján Már Unnarsson skrifar
Teigsskógarleiðin, nefnd Þ-H leið í gögnum Vegagerðarinnar, gerir ráð fyrir að veglínan liggi þvert yfir mynni Gufufjarðar og Djúpafjarðar og að Þorskafjörður verði jafnframt þveraður á móts við Þórisstaði.
Teigsskógarleiðin, nefnd Þ-H leið í gögnum Vegagerðarinnar, gerir ráð fyrir að veglínan liggi þvert yfir mynni Gufufjarðar og Djúpafjarðar og að Þorskafjörður verði jafnframt þveraður á móts við Þórisstaði. Teikning/Vegagerðin.
Sveitarstjórn Reykhólahrepps samþykkti á aukafundi í gær, með tveimur atkvæðum gegn engu, að auglýsa tillögu að breytingu á Aðalskipulagi Reykhólahrepps, sem gerir ráð fyrir að Vestfjarðavegur milli Bjarkalundar og Skálaness verði lagður um Teigsskóg. Þetta er í samræmi við ákvörðun hreppsnefndarinnar í síðasta mánuði um að velja Teigsskógarleiðina, sem samþykkt var með þremur atkvæðum gegn tveimur. 

Athygli vakti á fundinum í gær að þrír fulltrúar sátu hjá; Ingimar Ingimarsson oddviti, Karl Kristjánsson og Ágústa Ýr Sveinsdóttir, en þau lögðu fram svohljóðandi bókun:

„Undirrituð telja að R-leið Multiconsult sé heppilegust fyrir samfélagið á Reykhólum og Reykhólahrepp. Það sýnir valkostagreining Viaplan svo ekki verður um villst. En þar sem leið Þ-H var ákveðin af meirihluta sveitarstjórnar 22. janúar s.l. munum við ekki standa í vegi fyrir frekari afgreiðslu málsins. Því sitjum við hjá.“

Hér má sjá leiðirnar tvær sem tekist var á um fyrir framtíðarlegu Vestfjarðavegar.Grafík/Hlynur Magnússon.
Tillagan um að auglýsa Teigsskógarleiðina var samþykkt á aukafundinum í gær með atkvæðum tveggja varahreppsnefndarfulltrúa; Árnýjar Huldar Haraldsdóttur og Rebekku Eiríksdóttur, sem sátu fundinn í forföllum Jóhönnu Aspar Einarsdóttur og Emblu Daggar B. Jóhannsdóttur.

 


Tengdar fréttir

Reykhólahreppur valdi ÞH-leið um Teigsskóg

Hreppsnefnd Reykhólahrepps samþykkti á fundi sem lauk nú á þriðja tímanum að setja veglínu um Teigsskóg inn á aðalskipulag sveitarfélagsins. Það var samþykkt með þremur atkvæðum gegn tveimur.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×