Innlent

Vonar að deiluaðilar nýti tímann vel

Heimir Már Pétursson og Kjartan Kjartansson skrifa
Katrín Jakobsdóttir forsætisráðherra segist vonast til þess að verkalýðsfélögin fjögur sem slitu kjaraviðræðum í dag og Samtök atvinnulífsins nýti tímann fram að mögulegum verkfallsaðgerðum vel og freisti þess að ná samningum. Ríkisstjórnin sé til viðræður um frekari aðkomu að lausn deilunnar.

Efling, VR, Verkalýðsfélag Grindavíkur og Verkalýðsfélag Akraness slitu viðræðum sínum við Samtök atvinnulífsins í dag. Þau gætu hafið verkfallsaðgerðir í fyrsta lagi eftir tvær vikur.

Í viðtali í kvöldfréttum Stöðvar 2 í kvöld sagði forsætisráðherra að viðræðuslitin væru áhyggjuefni fyrir ríkisstjórnina og landið allt.

„Ég ber þá von í brjósti að aðilar, Samtök atvinnulífsins og þessi fjögur félög sem slitu, muni nýta tímann núna þrátt fyrir að boðað hafi verið til aðgerða til þess að gera sitt ítrasta til að ná samningum,“ sagði Katrín.

Lýsti hún tillögum sem ríkisstjórnin lagði til í vikunni um breytingar á skattkerfinu sem umfangsmiklum og að þær hefðu í för með sér verulegar samfélagslegar umbætur.

„Við lýstum því líka að við værum reiðubúin til samtals um nokkur viðbótaratriði þannig að við munum auðvitað halda áfram okkar vinnu enda held ég að það sé til mjög mikils að vinna fyrir alla aðila í samfélaginu og allan almenning að hér komi ekki til harðra átaka,“ sagði forsætisráðherra.


Tengdar fréttir
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.