Lífið

Tvöfaldur ljóðaverðlaunahafi

Kolbrún Bergþórsdóttir skrifar
Ægir Þór Jahnke verðlaunaskáld er að undirbúa útgáfu á menningartímariti sem á að fá hið frumlega heiti Skandali.
Ægir Þór Jahnke verðlaunaskáld er að undirbúa útgáfu á menningartímariti sem á að fá hið frumlega heiti Skandali. Fréttablaðið/Sigtryggur Ari
Ægir Þór Jahnke vann nýlega fyrstu og önnur verðlaun í ljóðasamkeppni Stúdentablaðsins. Verðlaunaljóðið heitir Slabb og ljóðið sem lenti í öðru sæti nefnist Auðvald og íslenskt veðurfar „Þetta er þriðja ljóðakeppnin sem ég tek þátt í og í þeirri fyrstu, ljóðasamkeppni í Verslunarskólanum, vann ég fyrstu og þriðju verðlaun, þannig að þetta er ekki alveg nýtt fyrir mér. Ég fékk engin verðlaun í næstu ljóðakeppni þannig að ég kann líka að tapa,“ segir Ægir sem er að ljúka við meistararitgerð í heimspeki.

Um verðlaunaljóðið segir hann: „Það er hluti af handriti sem heitir Drabb sem er sería af ljóðum sem tengjast, ekki síst í gegnum veðrabrigði og liti. Í þessu ljóði er ég að fjalla um hnattræna hlýnun og hnignun jarðarinnar en reyni að gera það á skemmtilegan máta.“

Byrjaði að yrkja í leikskóla 

Hann segist hafa byrjað að yrkja strax í leikskóla. „Ég átti öflugt tímabil við lok grunnskóla og eitthvað fram í menntaskóla en síðan tók við fjögurra ára tímabil þar sem afköstin voru nær engin. Ég datt svo inn í ljóðahóp Fríyrkjunnar sem gaf út þrjú safnrit en ég á efni í því þriðja. Síðustu ár hef ég staðið fyrir einum fimmtán ljóðakvöldum á Gauknum og mér telst til að um það bil 60 skáld séu búin að lesa upp með mér, mörg hver í fyrsta sinn. Mér er hugleikið að koma ungum höfundum á framfæri. Sjálfur er ég að detta út úr því að teljast ungur höfundur, orðinn þrítugur.“

Ægir hefur gefið út eina ljóðabók, Ódýrir endahnútar, sem kom út í lok nóvember. Næsta bók er smárit, langt prósaljóð sem væntanleg er á allra næstu vikum. „Sú bók heitir Þetta er ekki manifestó og er vissulega eins konar manifestó,“ segir hann. Síðan er von á tveimur ljóðabókum sem geyma sigurljóðin tvö og þær koma út í síðasta lagi í haust, önnur mögulega í sumar. Hann gefur þær út sjálfur og segist hafa góða reynslu af sjálfsútgáfu.



Skandali á leiðinni

Þessa dagana vinnur Ægir að útgáfu tímaritsins Skandali. „Þetta er menningartímarit sem ég ritstýri í samstarfi við sex aðra einstaklinga sem allir eru upprennandi höfundar, sá yngsti er átján ára, sá elsti þrjátíu og fjögurra ára. Hugmyndin er sú að ritstjórnin sé fjölbreytt og síbreytileg. Þarna verða ekki bara textaverk heldur líka ljósmyndir og menningarrýni. Þetta á að vera allsherjar menningarblað.“ Fjáröflun er í gangi á Karolina fund. „Það er dýrt að gefa út en við vonumst til að ná inn því fjármagni sem þarf,“ segir Ægir.








Fleiri fréttir

Sjá meira


×