Um verðlaunaljóðið segir hann: „Það er hluti af handriti sem heitir Drabb sem er sería af ljóðum sem tengjast, ekki síst í gegnum veðrabrigði og liti. Í þessu ljóði er ég að fjalla um hnattræna hlýnun og hnignun jarðarinnar en reyni að gera það á skemmtilegan máta.“
Byrjaði að yrkja í leikskóla
Hann segist hafa byrjað að yrkja strax í leikskóla. „Ég átti öflugt tímabil við lok grunnskóla og eitthvað fram í menntaskóla en síðan tók við fjögurra ára tímabil þar sem afköstin voru nær engin. Ég datt svo inn í ljóðahóp Fríyrkjunnar sem gaf út þrjú safnrit en ég á efni í því þriðja. Síðustu ár hef ég staðið fyrir einum fimmtán ljóðakvöldum á Gauknum og mér telst til að um það bil 60 skáld séu búin að lesa upp með mér, mörg hver í fyrsta sinn. Mér er hugleikið að koma ungum höfundum á framfæri. Sjálfur er ég að detta út úr því að teljast ungur höfundur, orðinn þrítugur.“Ægir hefur gefið út eina ljóðabók, Ódýrir endahnútar, sem kom út í lok nóvember. Næsta bók er smárit, langt prósaljóð sem væntanleg er á allra næstu vikum. „Sú bók heitir Þetta er ekki manifestó og er vissulega eins konar manifestó,“ segir hann. Síðan er von á tveimur ljóðabókum sem geyma sigurljóðin tvö og þær koma út í síðasta lagi í haust, önnur mögulega í sumar. Hann gefur þær út sjálfur og segist hafa góða reynslu af sjálfsútgáfu.