Innlent

Akurnesingar vilja hýsa fyrirhugaða stofnun um þjóðgarða

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Akranes.
Akranes. Vísir/Egill

Bæjarstjórn Akraness hefur skorað á umhverfisráðherra að höfuðstöðvar fyrirhugaðar nýrrar stofnunar um þjóðgarða og friðlýst svæði verði staðsettar á Akranesi.

Bókun þess efnis var samþykkt einróma á bæjarstjórnarfundi í vikunni. Þar er lagt til að höfuðstöðvarnar verði starfræktar með samlegt við Landmælingar Íslands sem staðsett er á Akranesi.

„Bæjarstjórn telur að með þessu megi stuðla að hagkvæmni í ríkisrekstri, húsrými er nægt fyrir báðar stofnanir í húsnæði Landmælinga á Akranesi og að áliti bæjarstjórnar mun starfsemi beggja stofnana styrkjast með slíkri samvinnu s.s. með því að nýta sameiginlega innviði á sviði upplýsingatækni, mannauðsmála, fjármálastjórnunar og gæðamála,“ segir í bókuninni.

Þar segir einnig að Akranes sé á hlutlausu svæði og ekki ekki bundið af hagsmunum þeirra landsvæða þar sem þjóðgarðar eða friðlýst svæði eru rekin. Þá sé Akranes nálægt höfuðborgarsvæðinu sem bjóði upp á nálægð við stjórnsýslu og helstu ferðamannasvæði.

„Þetta er að dómi bæjarstjórnar, frábært tækifæri til að skapa þessum tveimur stofnunum aðstæður þar sem einn plús einn gæti orðið miklu meira en bara tveir,“ segir í bókuninni.

Þá er bent á að nýlega hafi bærinn misst sýslumanns- og lögreglustjóraembæti úr bænum og að bæjarstjórn standi í mikilli baráttu við að verja þau störf sem eftir eru hér á vegum þessara embætta.

Lesa má bókunina í heild sinni hér.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.