Innlent

Samtal verkalýðsfélaga við stjórnvöld komið í gang

Sighvatur Arnmundsson skrifar
Fólk hefur fundað stíft hjá ríkissáttasemjara að undanförnu.
Fólk hefur fundað stíft hjá ríkissáttasemjara að undanförnu. FRÉTTABLAÐIÐ/SIGTRYGGUR ARI
„Það samtal sem við höfum verið að bíða eftir við stjórnvöld er komið í gang. Við höfum auðvitað verið að ræða þessa stóru þætti eins og launaliðinn en það klárast í rauninni ekki fyrr en við vitum hver aðkoma stjórnvalda verður,“ segir Ragnar Þór Ingólfsson, formaður VR.

Þriðji sáttafundur vikunnar milli Samtaka atvinnulífsins og Eflingar, Verkalýðsfélags Akraness, VR og Verkalýðsfélags Grindavíkur fer fram í dag. Forsetateymi ASÍ ræddi skattatillögur sínar við stjórnvöldum í gær.

Ragnar Þór segir jákvætt að aðkoma stjórnvalda sé að skýrast. „En ef hlutir fara ekki að skýrast innan tveggja vikna munum við íhuga næstu skref.“

Sólveig Anna Jónsdóttir, formaður Eflingar, segir að eftir helgi sé von á skýrslu Stefáns Ólafssonar prófessors og Indriða H. Þorlákssonar, fyrrverandi ríkisskattstjóra, um skattamál. Sólveig segir skýrsluna gott fóður í viðræður við stjórnvöld.

„Alexandria Ocasio-Cortez, félagi minn í Bandaríkjunum, hefur sagt að það sé alltaf verið að stilla hlutunum þannig upp að almenningur skilji ekki flókna hluti. Okkar afstaða er að það sé hluti af einhverju kúgunartæki. Við skiljum alveg flókna hluti ef þeir eru settir fram á mannamáli.“

Sólveig segir verkalýðsfélögin ekki hafa slegið neitt af kröfum sínum gagnvart SA. „Við erum bara enn þá í viðræðum við SA en við viljum líka að viðræður við stjórnvöld fari af stað á fullum krafti.“




Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×