Innlent

Segir lífskjör stórra hópa geta batnað verði húsnæðistillögur að veruleika

Berghildur Erla Bernharðsdóttir skrifar
Aldísi Hafsteinsdóttur formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga líst vel á tillögur átakshóps forsætisráðherra í húsnæðismálum.
Aldísi Hafsteinsdóttur formanni Sambands íslenskra sveitarfélaga líst vel á tillögur átakshóps forsætisráðherra í húsnæðismálum.

Formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga telur að stjórn sambandsins lýsi yfir ánægju með tillögur átakshóps forsætisráðherra í húsnæðismálum. Mörg sveitarfélög hafi nú þegar sótt eftir stofnframlögum til uppbyggingar á leiguhúsnæði.

Átakshópur forsætisráðherra í húsnæðismálum kynnti tillögur sínar í gær. Þar kom fram að bæta þarf í framlög til uppbyggingar almenna íbúðakerfisins. Þá þurfi að einfalda byggingarreglugerðir, lækka lánskostnað óhagnaðardrifinna íbúðafélaga og samræma áætlanir ríkis- og sveitarfélaga í húsnæðismálum.

Aldís Hafsteinsdóttir formaður Sambands íslenskra sveitarfélaga er ánægð með tillögurnar. 

„Ég held ég geti sagt að mér lítist mjög vel á þessar tillögur þær eru mjög metnaðarfullar. Þetta eru 40 tillögur sem taka á mjög mikilvægum þáttum. Ef að eftirfylgnin tekst eins og við vonumst öll til þá á þetta að verða til þess að bæta mjög lífskjör stórra hópa,“ segir Aldís.

Meðal tillagna átakshópsins er að ríki og sveitarfélög ræði saman um að lögfesta skyldu sveitarfélaga til að taka þátt í uppbyggingu á almennum leiguíbúðum. Fjármagnskostnaður stofnframlagshafa verði lækkaður til að tryggja framgang almenna íbúðakerfisins og stærri hluti stofnframlags geti komið til útgreiðslu við samþykkt umsóknar um uppbyggingu húsnæðis til að lækka fjármagnskostnað. Aldís segir að mörg sveitarfélög séu þegar farin af stað. 

„Það eru mjög mörg sveitarfélög að íhuga og jafnvel sækja um stofnframlög til almennra leiguíbúða. Það sem vantar kannski þar eru meiri framlög í stofnframlögin því margir bíða eftir afgreiðslu umsóknum. En það er ekki spurning það eru fjölmörg sveitarfélög að horfa til þess að geta byggt upp leiguhúsnæði með þessum hætti,“.
 
Stjórn Sambands íslenskra sveitarfélaga hittist á föstudag og býst Aldís við að vel verði vel í tillögurnar.

„Það er stjórnarfundur hjá Sambandi íslenskra sveitarfélaga á föstudaginn og þar munum við ræða þessar tillögur. Ég á ekki von á öðru en að sveitarfélögin eins og aðrir sem hafa komið að þessari viðamiklu vinnu eigi eftir að lýsa yfir ánægju sinni í heild með þetta,“ segir Aldís Hafsteinsdóttir.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.