Innlent

Boða til mótmæla gegn „Klaustursþingmönnum“ á Austurvelli

Kjartan Kjartansson skrifar
Ummæli þingmannanna á Klaustri í garð stjórnmálakvenna voru sérlega gróf.
Ummæli þingmannanna á Klaustri í garð stjórnmálakvenna voru sérlega gróf. Vísir/Vilhelm

Hópur sem kallar sig „Takk Bára“ hefur boðað til mótmæla gegn þingmönnum sem heyrðust hafa uppi gróf og óviðeigandi ummæli um stjórnmálakonur á hljóðupptökum á barnum Klaustri á sunnudag. Einn forsvarsmanna hópsins segist algerlega misboðið yfir framgöngu þingmannanna.

Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins sem höfðu sig mest frammi á Klaustursupptökunum svonefndu, sneru aftur á þing í vikunni eftir að hafa tekið sér launalaust leyfi eftir að ummæli þeirra ollu almennri hneykslan í lok nóvember.

„Takk Bára“ hefur nú boðað til mótmæla gegn þingmönnunum sem heyrðust á upptökunni á Austurvelli klukkan 14 á sunnudag. Hópurinn var stofnaður af vinum Báru Halldórsdóttir, sem tók ummæli þingmannanna upp, vegna aðgerða þingmannanna gegn henni í fyrra.

Í samtali við Vísi segir Sindri Viborg, einn stofnenda hópsins, að framganga þingmannanna sem hefur birst í blöðum og greinum undanfarna daga sem og endurkoma þeirra á þing misbjóði þeim. Segir hann þingmennina ætlast til þess að vera taldir fórnarlömb í málinu.

„Þetta er bara með ljótustu tuddahegðun sem maður hefur séð á síðari árum og okkur er bara algerlega misboðið,“ segir Sindri.

Ekki er gerð krafa um afsögn þingmannanna í boðunum á mótmælin á Facebook en Sindri segist gera ráð fyrir því að það sé krafa margra sem mæti á þau.

„Okkur finnst eðlilegt að þeir víki. Það er ekkert eðlilegt í framgöngu þeirra í þessu máli alveg frá því í lok nóvember,“ segir Sindri.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.