Innlent

Endur­bygging eina tvö­falda stein­bæjarins í borginni á loka­metrunum

Atli Ísleifsson skrifar
Húsið verður selt á almennum markaði og gerir framkvæmdastjóri Minjaverndar ráð fyrir að tap félagsins vegna verksins verði um tuttugu milljónir króna.
Húsið verður selt á almennum markaði og gerir framkvæmdastjóri Minjaverndar ráð fyrir að tap félagsins vegna verksins verði um tuttugu milljónir króna. vísir/vilhelm

Áætlað er að framkvæmdum við endurbætur Minjaverndar á Stóraseli við Holtsgötu í Reykjavík, eina tveggja bursta steinbæ sem eftir er í borginni, ljúki í maí næstkomandi. Framkvæmdastjóri Minjaverndar segir ávallt hafa verið gert ráð fyrir tap verði á verkefninu, en til stendur að selja húsið á almennum markaði þegar framkvæmdum lýkur.

Bærinn var byggður í tveimur áföngum árin 1884 og 1893, en áður hafði þar staðið torfbær um margra alda skeið. Bærinn stendur nú í bakgarði húsa við Holtsgötu, Ánanaust, Sólvallagötu og Framnesveg.

Þorsteinn Bergsson, framkvæmdastjóri Minjaverndar, segir að Minjavernd hafi tekið við húsinu árið 2014 þegar gerður var rammasamningur við Reykjavíkurborg – samning sem náði meðal annars til þessa húss. Hann segir húsið hafa verið afar hrörlegt og því „misþyrmt“, meðal annars með ýmsum viðbyggingum svo sem gróðurhúsi á þaki. Þá hafði hluti hlaðinna veggja verið rifinn.

Húsið var hrörlegt að sjá fyrir endurbætur.Mynd/Minjavernd

20 milljón króna tap

Byrjað var að taka innan úr húsinu árið 2015 og stóðu svo yfir fornleifarannsóknir fram til ársins 2016. „Endurgerð að ytra byrði er nú lokið, búið er að endurhlaða þá steinveggi sem endurhlaðnir verða og er unnið að undirbúningi panelklæðninga innandyra. Áætlað er að verkinu verði lokið í maí,“ segir Þorsteinn.

Þorsteinn Bergsson, framkvæmdastjóri Minjaverndar

Hann segir að samkvæmt um þriggja ára gamalli fjárhagsáætlun hafi verið gert ráð fyrir að byggingar- og hönnunarkostnaður yrði um áttatíu milljónir. Ekki sé talinn með kostnaður vegna ýmissa leyfa og fornleifarannsókna.

Selt á almennum markaði

Húsið verður selt á almennum markaði og gerir Þorsteinn ráð fyrir að tap Minjaverndar vegna verksins verði um tuttugu milljónir. Alltaf hafi verið gert ráð fyrir tap á verkinu líkt og oft er þegar Minjavernd hefur við byggingum og hyggur á endurbætur.

Minjavernd er hlutafélag þar sem íslenska ríkið og Reykjavíkurborg eiga bæði um 38 prósenta hlut, og sjálfseignarstofnunin Minjar um 23 prósenta hlut.

Einu sinni var...Mynd/Minjavernd


Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×