Innlent

Reiknar með að vera á­fram for­maður nema sam­komu­lag minni­hlutans verði tekið upp

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Bergþór Ólason reiknar með að vera áfram formaður í umhverfis- og samgöngunefnd.
Bergþór Ólason reiknar með að vera áfram formaður í umhverfis- og samgöngunefnd. vísir/vilhelm

Bergþór Ólason, þingmaður Miðflokksins og formaður umhverfis- og samgöngunefndar, kveðst reikna með því að vera áfram formaður nefndarinnar nema að samkomulag stjórnarandstöðuflokkanna á þing um formennsku í fastanefndum verði tekið upp.

Verði samkomulagið tekið upp segist hann jafnframt reikna með því að formennskur annarra stjórnarandstöðuflokka komi til skoðunar en Samfylkingin fer með formennsku í stjórnskipunar- og eftirlitsnefnd og Píratar í velferðarnefnd.

Þetta kom fram í máli Bergþórs þegar hann ræddi við Kristján Már Unnarsson, fréttamann, að loknum fundi í umhverfis- og samgöngunefnd í morgun.

Uppnám varð á fundinum þegar Bergþór mætti og settist í stól formannsins og sagði Helga Vala Helgadóttir, þingmaður Samfylkingarinnar sem sæti á í nefndinni, að það hefði óvart að hann hefði farið beint í formannsstólinn.

Eins og flestum er kunnugt er Bergþór einn sex þingmanna sem sátu á Klaustur Bar í nóvember síðastliðnum og létu ýmis niðrandi ummæli falla um samþingmenn sína og aðra nafntogaða einstaklinga.

Sjá einnig: Mikill hiti á nefndarfundi vegna formennsku Bergþórs
 
Aðspurður hvort að uppákoman á nefndarfundinum hafi ekki verið óþægileg sagði hann svo ekki vera.
 
„Nei, nei, hún var nú kannski viðbúin að nokkru leyti. Það hafa auðvitað mörg stór orð fallið á síðustu dögum og vikum þannig að ég var í sjálfu sér viðbúinn þessu og virði þær skoðanir sem þarna komu fram.“

Spurður út í það hvort að honum væri sætt áfram sem formanni í nefndinni vísaði Bergþór í áðurnefnt samkomulag stjórnarandstöðuflokkanna.

„Það er í rauninni þannig eins og fram hefur komið í fjölmiðlum að formennska mín er tengd því samkomulagi sem stjórnarandstöðuflokkarnir gerðu varðandi þau þrjú formannssæti sem stjórnarandstöðunni féllu í skaut og á meðan það samkomulag er ekki tekið upp þá reikna ég með að ég sitji í formannsstólnum. Það er þannig að ef að það verður tekið upp þá má reikna með því að formennskur annarra stjórnarandstöðuflokkanna komi til skoðunar í því samhengi,“ sagði Bergþór.
Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.