Innlent

Dyravörðurinn mun þurfa aðstoð ævilangt

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dyraverðir sýndu mikla samstöðu í kjölfar árásarinnar og komu meðal annars saman fyrir utan Shooters og lögðu hanska sína á tröppurnar fyrir framan næturklúbbinn.
Dyraverðir sýndu mikla samstöðu í kjölfar árásarinnar og komu meðal annars saman fyrir utan Shooters og lögðu hanska sína á tröppurnar fyrir framan næturklúbbinn. Vísir

Læknir dyravarðarins sem lamaðist fyrir neðan háls eftir líkamsárás aðfaranótt 26. ágúst í fyrra segir hann munu þurfa aðstoð ævilangt. Um sé að ræða svokallaðan alskaða. Afar ólíklegt sé að hann nái nokkrum bata sem hafi áhrif á hans getu. Endurhæfingin snúi að því að laga umhverfið að honum með rafmagnshjólastól, lyftu og aðstoðarfólki.

Þetta kom fram í vitnisburði læknisins sem vinnur náið með dyraverðinum í endurhæfingu sem staðið hefur yfir nú í á fimmta mánuð. Dyravörðurinn, sem er 37 ára, starfaði á skemmtistaðnum Shooters og var á vakt umrædda nótt þegar fjórir pólskir menn réðust á hann og kollega hans eftir að hafa verið áður vikið af staðnum. Tveir til viðbótar tóku þátt í árásinni en ekki hefur tekist að bera kennsl á þá.

Dyravörðurinn svaraði spurningum saksóknara, verjanda og dómara á endurhæfingadeild Landspítalans í dag. Þar ætlar hann sér að ganga út þrátt fyrir að líkurnar á því séu engar að mati lækna. Markmið sé að koma honum á einhvern hátt í eigin búsetu en neyðarrúrræði sé hjúkrunarheimili. 

Læknir lýsti því að lömunin væri tilkomin vegna skaða á mænu sem virðist hafa orðið í kjölfar árásar Artur Pawel Wisocki á hann. Artur viðurkennir árásina en neitar að hafa hrint dyraverðinum í gólfið inni á Shooters þangað sem hann elti hann á hlaupum. Segir Artur þá báða hafa dottið og Artur síðan farið frá. 

Dyravörðurinn segir Artur hins vegar hafa hrint sér og í framhaldinu bæði sparkað í sig og kýlt þar sem hann lá í tröppum við bakdyr staðarins sem snúa út á Austurvöll. Síðan hefur maðurinn ekki getað hreyft sig nema að örlitlu leyti neðan við háls.

Miskabótakrafa dyravarðarins á hendur Artur hljóðar upp á 123 milljónir króna. Fangelsisdómur við stórfelldri líkamsárás varðar sextán árum. 


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.