Innlent

Fresta útgáfu afmælisbókar Jóns Baldvins

Birgir Olgeirsson skrifar
Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra.
Jón Baldvin Hannibalsson, fyrrverandi utanríkisráðherra. FBL/Stefán

Jón Baldvin Hannibalsson og útgáfufélagið Skrudda hafa ákveðið að fresta útgáfu bókar sem átti að geyma ræður, rit og greinar Jóns Baldvins. 



Átti að gefa út bókina nú í febrúar í tilefni af því að Jón Baldvin, sem er fyrrverandi utanríkisráðherra, verður áttatíu ára 21. febrúar næstkomandi. Greint var fyrst frá frestun bókarinnar á vef Eyjunnar en Steingrímur Steinþórsson hjá Skruddu staðfestir þetta í samtali við Vísi. 



Steingrímur segir útgáfuna og Jón hafa tekið ákvörðun um að fresta útgáfu bókarinnar í sameiningu. Jón hefur lokið sínum hluta útgáfunnar, það er að segja skrifum og samantekt á ræðum, ritum og greinum, en bókin hafði þó ekki verið send til prentunar. Hvenær hún verður gefin út er óráðið að sögn Steingríms.



Í síðustu viku birtust í Stundinni frásagnir fjögurra kvenna um áreitni Jóns Baldvins. Þeirra á meðal er Guðrún Harðardóttir, frænka eiginkonu Jóns Baldvins. Árið 2012 greindi Guðrún frá því í Nýju lífi að Jón Baldvin hefði sent henni bréf þegar hún var barn að aldri sem innihéldu berorðar kynlífslýsingar.



Guðrún hefur stofnað sérstakan #metoo-hóp á Facebook sem er tileinkaður Jóni Baldvini. Eru á fimmta hundrað meðlimir í þeim hópi. 



Bókin sem gefa átti út átti að innihalda ræður, rit og greinar Jóns um frumkvæði Íslands að stuðningi við sjálfstæðisbaráttu Eystrasaltsþjóða, samningana við ESB um Evrópska efnahagssvæðið og Norræna módelið sem raunhæfan valkost við auðræði nýfrjálshyggjunnar, að því er fram kemur á vef Eyjunnar.


Tengdar fréttir

Jón Baldvin borinn þungum sökum um kynferðisbrot

MeToo-hópur á Facebook hefur verið stofnaður vegna fyrrverandi utanríkisráðherra auk þess sem fimm konur hafa greint frá meintri áreitni hans í Stundinni í dag og í gær.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×