Innlent

„Við verðum að setja einhverjar takmarkanir“

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Mun minni svifryksmengun vegna flugelda mældist á nýársnótt í ár en í fyrra. Sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun telur þó að setja þurfi einhverjar takmarkanir á notkun flugelda til að draga úr mengun. Mengunin sem mældist í nótt var ekkert í líkingu við tölurnar frá því á nýársnótt í fyrra þegar mengunarmet var slegið.

„Það var samt alveg drjúg mengun. Það fór í rúmlega þúsund hæsti klukkutíminn í Dalsmára, hæsta 10 mínútna gildið í Dalsmára var núna 1.600 miðað við 4.600 í fyrra þannig að í Dalsmára sem er svona versta stöðin um áramót var svona þrefalt minni mengun núna þessi áramót,“ segir Þorsteinn Jóhannsson, sérfræðingur í loftgæðum hjá Umhverfisstofnun. 

„Það var mikil losun mengunarefna núna myndi ég segja en það var samt rokið eða vindurinn sem var að hjálpa okkur til við að þynna þetta út.“

Umhverfisstofnun og heilbrigðiseftirlit fylgjast grannt með svifryksmenguninni en í mælistöð Umhverfisstofnunar við Grensásveg eru tekin sýni sem síðan verða send til greiningar. Þótt mengunin hafi verið minni í ár en í fyrra er ekkert sem bendir til þess að minna hafi verið sprengt af flugeldum, heldur er það veðrið sem er stærsti áhrifaþátturinn.

„Ég hef nú sjálfur gaman af því að skjóta upp flugeldum en við verðum að setja einhverjar takmarkanir held ég, miðað við hvernig þetta var í fyrra,“ segir Þorsteinn.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×