Innlent

Frumhvötin virkjast í bogfimi

Tryggvi Páll Tryggvason skrifar
Það er eitthvað í frumhvöt mannsins sem virkjast þegar bogfimi er stunduð segir bogfimiþjálfari. Gestir Glerártorgs á Akureyri gátu prófað að skjóta í mark á sérstökum bogfimidögum. 

Saga bogfiminnar nær árþúsundir aftur í tímann en ekki þarf að leita langt aftur til þess að finna tíma þar sem boginn var lykilvopn í hernaði. Nú á dögum er bogfimin örlítið friðsælli, og helst stunduð undir vökulum augum þjálfara. 

Einn slíkur er Alfreð Birgisson hjá íþróttafélaginu Akri en þar blómstrar bogfimin og eru ungmenni þar dugleg að stunda alþjóðleg bogfimimót. Hann segir frumhvöt mannsins grípa inn í þegar boginn er mundaður.

„Það er eitthvað í frumþörfum okkar að hitta í mark. Það er eitthvað sem heillar. Þetta er ótrúlega skemmtilegt. Þetta er tiltölulega einfalt sport. Menn geta gert þetta til þess að hafa gaman af en menn geta líka skellt sér á bólakaf,“ segir Alfreð.

Íslenskum bogfimiiðkendum til halds og trausts er kanadíski bogfimiþjálfarinn Kelea Quinn. Eftir að hafa komið hingað til lands til þess að keppa á Reykjarvíkurleikunum árið 2016 voru bogfimimenn fljótir að tryggja sér krafta hennar.

„Á meðan ég var þar komst ég að því að það væri lítil sem engin andleg þjálfun á Íslandi í bogfimi. Það er það sem ég hef verið að gera undanfarin tíu ár þannig að ég bauðst til þess að koma aftur, og aftur. Þá var mér sagt að fara ekki.“

En hvað er það sem heillar Quinn við bogfimina?

„Stjórn, völd og hvað maður er svalur þegar maður stundar þetta.“  




Fleiri fréttir

Sjá meira


×