Lífið

Segir Zuckerberg hafa borið fram geit sem hann drap sjálfur

Kjartan Kjartansson skrifar
Jack Dorsey (t.v.) og Mark Zuckerberg (t.h.) stýra tveimur af vinsælustu samfélagsmiðlum heims.
Jack Dorsey (t.v.) og Mark Zuckerberg (t.h.) stýra tveimur af vinsælustu samfélagsmiðlum heims. Samsett/EPA/Getty
Mark Zuckerberg, stofnandi samfélagsmiðlarisans Facebook, drap geitur sem hann hélt heima hjá sér og bauð gestum upp á borða. Þetta segir Jack Dorsey, forstjóri samkeppnisaðilans Twitter, í viðtali við rokktímaritið Rolling Stone.

Dorsey var spurður út í eftirminnilegustu kynni sín við Zuckerberg í viðtalinu. Rifjaði hann þá upp að Zuckerberg hefði eitt árið aðeins lagt sér hluti til munns sem hann hafði sjálfur drepið. Þannig hafi Zuckerberg boðið Dorsey upp á geit í kvöldmat sem hann hafði áður drepið.

„Hann drepur hana með leysibyssu og svo með hnífi. Síðan senda þau hana til slátrarans,“ segir Dorsey í viðtalinu.

Inntur eftir því hvort að Zuckerberg hafi raunverulega verið með „leysibyssu“ segir Dorsey að hann hafi líklegt notað rafstuðbyssu við verkið. Lýsir hann jafnframt samtali þeirra um geitina.

„Ég sagði: „Ætlum við að éta geitina sem þú drapst?“. Hann sagði „já“. Ég sagði: „Hefur þú borðað geit áður?“ Hann var: „Já, ég elska þær“. Ég var: „Hvað ætlum við að borða annað?“ „Salat“,“ segir Dorsey.

Þegar Zuckerberg hafi farið að huga að geitinni í ofninum hálftíma síðar hafi hún enn verið köld.

„Það var eftirminnilegt. Ég veit ekki hvort hún fór aftur í ofninn. Ég borðaði bara salatið mitt,“ segir Dorsey.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×