Innlent

Íslendingur leiðir sósíalista til sigurs í Stafangri

Jakob Bjarnar skrifar
Mímir Kristjánsson leiddi sósíalista í Noregi til góðs kosningasigurs í Stafangri og því fagna vitaskuld íslenskir skoðanabræður hans.
Mímir Kristjánsson leiddi sósíalista í Noregi til góðs kosningasigurs í Stafangri og því fagna vitaskuld íslenskir skoðanabræður hans.
„Af sósíalískum og þjóðræknislegum ástæðum fögnum við sérstaklega góðum árangri systurflokki sósíalista í Noregi, Rødt, í Stafangri þar sem Mímir Kristjánsson leiddi listann, sonur Kristjáns Guðlaugssonar, sem virkur var í hinu villta vinstri á Íslandi á áttunda áratugnum,“ segir Gunnar Smári Egilsson stofnandi Sósíalistaflokks Íslands.

Mímir leiddi Rødt í sveitarstjórnarkosningunum sem fram fóru í Noregi í gær en fylgi flokksins fór úr 1,5 og upp í 5,5 prósent í Stafangri. Veruleg aukning sem þýðir að flokkurinn fékk fimm bæjarfulltrúa þar.

Á vefsíðunni nýjaisland.no er greint frá þessu og Mími óskað til hamingju með þennan glæsilega árangur.

„Mímir er norskur ríkisborgari og á norska móður en íslenskan föður. Hann hefur starfað sem blaðamaður og fréttastjóri á dagblaðinu Stéttarbaráttan (Klassekampen) undanfarin ár ásamt því að hann hefur skrifað bækur og verið álitsgjafi í sjón- og útvarpi um stjórnmál,“ segir á vefsíðunni.

Páll Valsson forleggjari og bókmenntafræðingur bætir við þeim upplýsingum á Facebooksíðu Sósíalistaflokks Íslands að Kristján hafi gert textann við lagið vinsæla, Ísland úr Nató.

„Sem sungið var á hverri samkomu herstöðvaandstæðinga. „Á Miðnesheiði bandarískur basi er ...““

Eins og gefur að skilja fagna íslenskir sósíalistar þessu og telja þetta gefa góð fyrirheit um aukið fylgi sér til handa á Íslandi. Gunnar Smári greinir frá því að Mímir hafi heimsótt sósíalista á Íslandi og sagt þeim frá uppbyggingu Rødt. „Hann var með ráðagerðir um að flytja hingað með fjölskylduna til að ná tökum á íslenskunni, sem hann skilur en talar ekki liðugt. En það verður ekki af því samkvæmt þessu, hann er fluttur til Stafangurs.“




Fleiri fréttir

Sjá meira


×