Enski boltinn

Svindluðu sér inn á Tottenham leikinn í gær þrátt fyrir UEFA-bann

Óskar Ófeigur Jónsson skrifar
Það var gaman hjá þessum stuðningsmanni Tottenham á leiknum í gær.
Það var gaman hjá þessum stuðningsmanni Tottenham á leiknum í gær. Getty/Matthew Ashton -
Tottenham hefur hafið rannsókn á því af hverju um tvö hundruð stuðningsmenn Rauðu Stjörnunnar voru meðal áhorfenda á Meistaradeildarleik Tottenham og Rauðu Stjörnunnar á nýja Tottenham leikvanginum í gær.

Stuðningsmenn Rauðu Stjörnunnar áttu að vera í banni hjá UEFA og það var því óleyfilegt fyrir þá að kaupa sér miða á útileiki liðsins. Ástæðan er kynþáttaníð sem þeir voru uppvísir að á leik í júlí síðastliðnum.





UEFA mun bíða eftir skýrslu frá sínum mönnum á leiknum áður en ákveðið verður að hefja rannsókn þar á bæ.

Öryggisverðir á vellinum þurftu að mæta á svæðið til að ganga á milli stuðningsmanna Rauðu Stjörnunnar og stuðningsmanna heimaliðsins.

„Stuðningsmenn Rauðu Stjörnunnar komust í leyfisleysi yfir miða á leikinn og söfnuðust síðan saman á einum stað til að mynda hóp,“ hefur BBC eftir talsmanni frá Tottenham.





„Öryggisverðir og lögreglumenn umkringdu hópinn af því að hann var of stór til að vísa út af leikvanginum. Við höfum hafið fulla rannsókn til að komast að því hvernig miðarnir komust í þeirra hendur,“ sagði talsmaðurinn og fullvissaði alla um það að það verði ekki tekið léttvægt á þeim sem seldu Serbíumönnunum miðanna.

Þetta var ekki skemmtileg ferð til London fyrir stuðningsmenn Rauðu Stjörnunnar því Tottenham vann leikinn 5-0 þar sem þeir Harry Kane og Son Heung-min voru báðir með tvennu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×