Teitur Arason, veðurfræðingur á Veðurstofu Íslands, segir í samtali við Fréttablaðið að ákefðin sem vænta má í úrkomunni á föstudaginn muni á einhverjum tímapunkti slaga í úrkomuna árið 2012. Það ár fennti fé víða í kaf.
Mikið óveður gekk yfir Norðurland 10. og 11. september 2012 með fannfergi og viðvarandi rafmagnsleysi dögum saman. Fé var enn á fjalli þegar veðrið skall á og fennti það í kaf í þúsunda vís.
Mörg hundruð björgunarsveitarmenn leituðu á stóru svæði dagana á eftir en neyðarástandi var lýst yfir á Norðurlandi. Vikurnar á eftir hélt leit áfram en skaðinn var skeður; mörg þúsund kindur höfðu drepist en það vakti athygli að einstaka kind fannst lifandi, grafin í fönn, langt fram eftir októbermánuði.
Teitur minnir þó á að veðurspáin geti breyst.
„Það sem er rétt að taka frá þessu er að það er norðan áhlaup í vændum og menn verða að vera undir það búnir.“