Mirjam van Twuyver bíður enn eftir niðurstöðu dómsmálaráðuneytisins í kærumáli hennar gegn Fangelsismálastofnun sem kallaði hana aftur til afplánunar í kjölfar þess að hún vann mál hjá kærunefnd útlendingamála. Útlendingastofnun hafði birt Mirjam úrskurð um brottvísun af landi auk 20 ára endurkomubanns til Íslands.
Mirjam, sem komin var á ökklaband, mætti að nýju til afplánunar á Sogni 6. september síðastliðinn og bíður niðurstöðu ráðuneytisins þar en kæra var send til ráðuneytisins í ágúst.
Lögmaður Mirjam, Sveinn Guðmundsson, hefur einnig farið fram á endurupptöku á máli hennar hjá kærunefnd útlendingamála en eins og Fréttablaðið hefur áður greint frá, telur lögmaðurinn að upplýsinga- og leiðbeiningarskylda gagnvart Mirjam hafi ekki verið uppfyllt, enda hafi henni ekki verið ljóst þegar hún kærði ákvörðunina um brottvísun, hvaða áhrif það gæti haft fyrir hana ef honum yrði snúið við.
Hún hafi fyrst og fremst viljað fá úrskurði um hið langa endurkomubann hnekkt, enda á hún íslenskan eiginmann og íslenska tengdafjölskyldu. Mirjam var fyrir nokkrum árum dæmd til þyngstu refsingar sem burðardýr hefur fengið hér á landi. Hún fékk 11 ára dóm í héraði en Hæstiréttur mildaði dóminn 8 ár.
