Innlent

Skjálfti að stærð 5,2 við Grímsey

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Svona leit skjálftakort Veðurstofunnar út skömmu fyrir klukkan 5 í morgun.
Svona leit skjálftakort Veðurstofunnar út skömmu fyrir klukkan 5 í morgun.
Jarðskjálftahrinan við Grímsey heldur áfram. Að sögn jarðvísindamanns á Veðurstofu Íslands hafa tugir skjálfta mælst stærri en 3 í eyjunni frá miðnætti.

Stærsti skjálftinn reið yfir um klukkan 5:30 í morgun en hann reyndist vera 5,2 að stærð. Skömmu áður hafði mælst skjálfti af stærðinni 4,5 í eyjunni.

Skjálfti 3,3 að stærð mældist klukkan 01:03, klukkan 02:24 var skjálfti að stærð 3,7 og klukkan 02:39 mældist einn skjálfti 3,5 að stærð við Grímsey. Skömmu eftir klukkan 3 í nótt mældust svo tveir skjálftar rúmlega 4,0 að stærð. Þrír skjálftar, allir stærri en 3, fylgdu svo skömmu á eftir.

Fjöldi minni skjálfta sem riðið hafa yfir eyjuna síðastliðinn sólarhring hleypur á hundruðum. Stærstu skjálftarnir hafa fundist greinilega á Akureyri, Húsavík sem og auðvitað í Grímsey.

Morgunblaðið hefur eftir Ármanni Höskuldssyni, eldfjallafræðingi að atburðarásin á bak við skjálftahrinuna sé mjög óvenjuleg. Hann segir í meira en hundrað ár hafi verið beðið eftir stórum skjálfta á svæðinu og greinilegt sé að jarðskorpan sé að losa um heilmikla spennu á Tjörnesbrotabeltinu. Hann segir að ef hann byggi á Húsavík myndi hann taka alla brothætta og verðmæta muni úr hillum á meðan hrinan er enn í gangi.

Fréttin var síðast uppfærð kl. 8:20.


Tengdar fréttir

Tæplega þúsund skjálftar á dag

Um fimmtíu manns hafa vetursetu í Grímsey þennan veturinn sem hefur einkennst af mörgum skjálftahrinum frá því síðasta haust. Áttræður eyjarskeggi hefur hins vegar ekki fundið einn einasta skjálfta á árinu.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×