Ásta Bjarney Elíasdóttir hefur verið ráðin skólastjóri Breiðholtsskóla. Hún tekur við starfinu af Jónínu Ágústsdóttur. Ráðning Ástu kemur í kjölfar mikillar óánægju hóps foreldra og skólastjórnenda á síðustu misserum með starfsandann í skólanum. Ítrekað hefur verið greint frá ósættinu sem er sagt hafa bitnað á skólastarfi Breiðholtsskóla svo mánuðum skiptir.
Bæði kennarar og tugir nemenda hafa hætt í skólanum sökum óánægjunnar. Í kjölfar undirskriftasöfnunar þar sem nemendur og foreldrar þeirra kölluðu eftir viðbrögðum frá borgaryfirvöldum ákvað skóla- og frístundasvið borgarinnar að bregðast við. Ætla má að ráðning Ástu sé liður í þeim viðbrögðum.
Sjá einnig: Krakkar og kennarar streyma úr Breiðholtsskóla vegna óróa
Á vef Reykjavíkurborgar segir að Ásta hafi lokið B.Ed. í grunnskólakennarafræðum frá Kennaraháskóla Íslands, hún sé með diplómu í stjórnun frá Kennaraháskóla Íslands og M.Ed. gráðu í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á stjórnunarfræði menntastofnana frá HÍ.
Hún hefur starfað sem umsjónarkennari í sjö ár, sem deildarstjóri í tvö ár, sem aðstoðarskólastjóri í sjö ár og nú síðast sem skólastjóri Húsaskóla frá 2012.
Á vef borgarinnar kemur jafnframt fram að Birna Sif Bjarnadóttir hafi verið ráðin sem skólastjóri Ölduselsskóla. Birna Sif hefur lokið M.Ed. gráðu í uppeldis- og menntunarfræði með áherslu á stjórnunarfræði menntastofnana frá HÍ. Birna Sif hefur starfað sem grunnskólakennari í 10 ár, sem deildarstjóri í eitt ár og sem aðstoðarskólastjóri Breiðholtsskóla í eitt ár, þar sem hún leysti einnig skólastjóra af um lengri og skemmri tíma.
Nýr skólastjóri þarf að lægja öldurnar

Tengdar fréttir

Krakkar og kennarar streyma úr Breiðholtsskóla vegna óróa
Foreldrar eru óánægðir með tíðar uppsagnir kennara og óstöðugleika sem þær skapa meðal nemenda í Breiðholtsskóla. Dæmi eru um að nemendur fái nýjan umsjónarkennara árlega.

Ætla að bregðast við áskorun foreldra vegna Breiðholtsskóla
Skóla-og frístundasvið mun fá utanaðkomandi fagaðila til að sætta hóp foreldra og skólastjórnendur í Breiðholtsskóla.