Innlent

Gerð verður úttekt á áhrifum styttingar framhaldsskólanámsins

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Utanaðkomandi aðila verður falið að gera úttekt á áhrifum styttingar framhaldsskólanáms til stúdentsprófs í þrjú ár. Umfang þeirrar úttektar hefur ekki verið ákveðið en miðað er við að verkefnisáætlun verði tilbúin fyrir jól. Þetta kemur fram í svari menntamálaráðuneytisins við fyrirspurn fréttastofu um reynsluna af styttingu námsins.

Skiptar skoðanir hafa verið uppi um ágæti þess að stytta námið í þrjú ár en samkvæmt svari ráðuneytisins hafa engar formlegar kvartanir borist ráðuneytinu vegna breytinganna. Því hafi hins vegar borist ýmsar ábendingar og viðbrögð, bæði jákvæð og neikvæð. „Mennta- og menningarmálaráðherra hefur mikinn áhuga á að meta ávinning styttingar náms til stúdentsprófs. Í undirbúningi er að setja af stað formlegt mat á breytingunni en þegar hefur verið hafið mat á inntaki þriggja ára stúdentsprófs hér á landi í samanburði við inntak sambærilegs náms á Norðurlöndunum," segir í svari ráðuneytisins. 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×