Innlent

Hótel Adam í kastljósi fjölmiðla síðan 2016

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Lögreglan á höfuðborgarsvæðinu stöðvaði í dag starfsemi Hótels Adams við Skólavörðustíg. Hótel Adam komst í kastljós fjölmiðla árið 2016 þegar vakin var athygli á því að vatn í flöskum, sem selt var á hótelinu, reyndist vera kranavatn. Gestum hafði verið ráðlagt að drekka ekki kranavatnið og kaupa vatn á flöskum sem kostuðu 400 krónur.

Í febrúar 2016 bókaði blaðamaður Vísis gistingu á hótelinu eftir að brösulega hafði gengið að fá svör frá eiganda þess. Ýmislegt kom á óvart í heimsókninni og um svipað leyti gerði heilbrigðiseftirlitið margvíslegar athugasemdir við aðbúnað á hótelinu. Árið 2017 var fyrirtækið sem heldur utan um rekstur hótelsins, R. Guðmundsson ehf. dæmt í Héraðsdómi Reykjavíkur til að greiða fyrrverandi starfsmanni hótelsins 2,3 milljónir vegna vangoldinna launa.

Í maí á þessu ári fór Íslandsbanki fram á að húsinæðið yrði sett á nauðungarsölu vegna skulda upp á tæpar 25 milljónir króna. Þá hefur Stundin fjallað um málefni hótelsins að undanförnu þar sem meðal annars er rætt við fyrrverandi starfsmann sem segist hafa verið niðurlægð og svikin af vinnuveitendum sínum.

Rekstrarleyfi hótelsins rann út í nóvember 2017 en síðastliðinn föstudag fengu eigendur hótelsins 48 klukkustunda frest til að undirbúa lokun þess. Síðdegis í dag mætti lögregla á staðinn og innsiglaði reksturinn. Hvorki fulltrúar lögreglu, sýslumanns, né Ragnar Guðmundsson, eigandi hótelsins, vildu veita fréttastofu viðtal í dag en Ragnar bað fjölmiðla að yfirgefa hótelið.

Sýslumaður hefur umsókn um endurnýjun rekstrarleyfis til umfjöllunar en ljóst er að rekstur hótelsins liggur niðri, að minnsta kosti þar til afgreiðsla embættisins liggur fyrir. 


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×