Innlent

Kalla líklega eftir viðbrögðum helstu braggastjórnenda

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs.
Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs. Vísir
Líklega verður kallað eftir viðbrögðum helstu stjórnenda sem komu að braggamálinu fljótlega á nýju ári að sögn formanns borgarráðs. Ekki liggur fyrir sem stendur hvort leigusamningur við Háskólann í Reykjavík verði endurskoðaður.

Ljóst er að víða var pottur brotinn við framkvæmd braggaverkefnisins að því er fram kemur í skýrslu innri endurskoðunar sem gerð var opinber í gær. Í bréfi til borgarráðs segir innri endurskoðandi að hann telji tilefni til þess að borgarráð óski formlega eftir viðbrögðum þeirra stjórnenda sem komu að braggamálinu. Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs, segir að brugðist verði við þessu.

„Þeir hafa nú ekki verið kallaðir til. Við erum rétt að klára að lesa skýrsluna. Það er þó hafi vinna við að greina þá punkta sem komu út úr skýrslunni. Ég geri svo ráð fyrir því að eftir áramót, þegar fólk mætir til vinnu aftur, að þá einhendum við okkur í þetta.“

Í skýrslu innri endurskoðunar vegur ábyrgð Hrólfs Jónssonar, fyrrverandi skrifstofustjóra eigna og atvinnuþróunar, nokkuð þungt en hann er hættur störfum hjá borginni.

„Við eigum alveg eftir að skoða það hverjr það verða nákvæmlega. Ég geri ráð fyrir að það verði svona helstu persónur og leikendur í þessu. Margir þeirra eru nú þegar hættir hjá Reykjavíkurborg en við munum bara fara yfir það eins og annað. Þetta er eitt af þessum stóru málum sem við komum til með að fara beint í.“

Eitt af því fáa sem virðist hafa verið rétt staðið að, hvað varðar gerð samninga, var leigusamningur við Grunnstoð dótturfélag Háskólans í Reykjavík. Leigugreiðslur þyrftu þó að vera um 1,7 milljónir á mánuði til að núvirði verkefnisins yrði jákvætt, eða ríflega einni milljón hærri en kveðið er á um í leigusamningi.

„Þetta er náttúrlega bara leigusamningur eins og hver annar leigusamningur með þeim ákvæðum sem þar eru. Við munum bara skoða þetta allt saman í heild,“ segir Þórdís Lóa Þórhallsdóttir, formaður borgarráðs.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×