Innlent

Shooters-málið: Játar árás en ekki þá sem lýst er í ákæru

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Dyraverðir hafa farið fram á víkkun starfssvæðis og auknar heimildir til tækjanotkunar við störf sín.
Dyraverðir hafa farið fram á víkkun starfssvæðis og auknar heimildir til tækjanotkunar við störf sín. Vísir/Vilhelm
Karlmaður sem ákærður er fyrir stórfellda líkamsárás í miðbæ Reykjavíkur í lok ágúst sem leiddi til þess að dyravörður lamaðist fyrir neðan háls neitaði sök þegar alvarlegustu atriðin sem hann er sakaður um að hafa gert voru borin undir hann. Um er að ræða svokallað Shooters-mál en dyravörðurinn starfaði á samnefndum stað í Austurstræti í Reykjavík.

Ákærði, sem er 29 ára karlmaður, viðurkennir að hafa veitt dyraverðinum hnefahögg en ekki ítrekuð högg og spörk eins og því er líst í ákærunni. Hann hafnar því að afleiðingar árásarinnar séu eins og lýst er í ákærunni, að því er segir í frétt Mbl.is.

Ákærði kom fyrir héraðsdóm í morgun ásamt öðrum karlmanni þegar málið var þingfest. Þeir eru báðir ákærðir fyrir aðra sérstaklega hættulega líkamsárás sama kvöld á svipuðum slóðum. Í þeim ákærulið játar sá sem sakaður er um árásina á dyravörðinn hlutdeild sína í árásinni. Hinn játar að hluta.

Sá sem sakaður er um alvarlegu árásina gæti átt yfir höfði sér allt að sextán ára fangelsi verði hann fundinn sekur. Hann hefur verið í gæsluvarðhaldi síðan hann var handtekinn þann 26. ágúst. Þá liggur fyrir bótakrafa í málinu frá réttargæslumanni brotaþola en hún hljóðar upp á 123 milljónir króna.

Aðalmeðferð í málinu er fyrirhuguð 11. janúar.


Tengdar fréttir

Rúmlega 100 milljóna króna bótakrafa í Shooters-málinu

Réttargæslumaður dyravarðarins sem er lamaður fyrir neðan háls eftir líkamsárás fyrir utan skemmtistaðinn Shooters þann 26. ágúst fer fram á rúmlega 100 milljónir króna í miskabætur frá árásarmanninum.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×