Innlent

Snjór í dag en hvassviðri handan við hornið

Stefán Ó. Jónsson skrifar
Snjór tók víða á móti landsmönnum í dag.
Snjór tók víða á móti landsmönnum í dag. Vísir/vilhelm

Líkur eru á snjókomu eða éljum í flestum landshlutum í dag. Frostið verður á bilinu 1 til 12 stig, en víða frostlaust við suðurströndina. Veðurstofan  áætlar að það geti orðið „talsvert frost“ í innsveitum í nótt.

Hin „hægfara smálægð“ vestan við landist mun grynnast smám saman og mun því draga úr ofankomu þegar kemur fram á daginn og verður úrkomulítið seinnipartinn eða í kvöld.

Líkur eru á að létti víða til fyrir norðan í nótt og má því búast við hörku næturfrosti á þeim slóðum, sérstaklega í innsveitum. Þó áfram verði kalt í veðri má búast við því að geti orðið frostlaust við suðvesturströndina í dag.

Strekkings austanátt verður syðst á landinu á morgun að sögn veðurfræðings og dálítil él, en hægari fyrir norðan og áfram frost. Það hvessir svo almennilega á fimmtudag með rigningu eða slyddu sunnan- og suðaustanlands og fer hlýnandi en útlit er fyrir austan storm syðst.

Veðurhorfur á landinu næstu daga

Á miðvikudag:
Vaxandi suðaustanátt, 10-18 m/s seinnipartinn, en hægari N- og A-lands. Snjókomu eða slyddu með köflum, en þurrt á N- og A-landi. Hiti 0 til 5 stig með suðvestur- og suðurströndinni, en frost 0 til 12 stig annars staðar, kaldast í innsveitum NA-lands.

Á fimmtudag:
Gengur í austan 10-18, en 18-25 syðst og í Öræfum. Slydda eða rigning S- og SA-lands, en snjókoma eða slydda á Austfjörðum og á NA-landi. Þurrt lengst af V- og NV-lands en dálítil slydda þar um kvöldið. Hiti 0 til 5 stig, en vægt frost norðanlands.

Á föstudag:
Norðaustan 8-15 m/s. Snjókoma á NA-landi og N-til á Vestfjörðum, en slydda á Austfjörðum. Annars úrkomulítið. Vægt frost inn til landsins, en víða frostlaust við ströndina.

Á laugardag:
Austlæg átt, 5-13 og hvassast við S-ströndina. Rigning eða slydda vestantil, en stöku él á austanverðu landinu. Hiti breytist lítið.

Á sunnudag:
Vaxandi suðaustlæga átt og vætu SV- og V-lands, en bjartviðri um landið norðaustanvert. Heldur hlýnandi.

Á mánudag:
Útlit fyrir stífa suðaustanátt með talsverðri eða mikilli rigningu, en úrkomulítið NA-til. Milt veður.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.