Innlent

Bergþór og Gunnar Bragi mættu ekki í veisluna

Kolbeinn Tumi Daðason skrifar
Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins.
Gunnar Bragi Sveinsson og Bergþór Ólason, þingmenn Miðflokksins. Vísir

Bergþór Ólason og Gunnar Bragi Sveinsson, þingmenn Miðflokksins, voru ekki á meðal gesta í veislu forsetahjónanna á Bessastöðum í gærkvöldi. Ekki liggur fyrir hvers vegna þeir mættu ekki en fyrr um daginn sagðist Gunnar Bragi stefna á mætingu.

Bergþór hefur ekki tjáð sig síðan að kvöldi miðvikudags en á Klaustursupptökunum fer hann ófögrum orðum um kollega sína á Alþingi, aðallega þingkonur. 

Gunnar Bragi sagðist í samtali við fréttastofu í gær ætla að mæta í hina árlegu veislu á Bessastöðum. Hann vonaði að orð þingmannanna að kvöldi 20. nóvember á Klaustur yrðu ekki til þess að aðrir þingmenn mættu ekki.

Sagðist Gunnar Bragi að öllum líkindum ekki ætla að snerta áfengi um kvöldið.

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, á Bessastöðum í gær. vísir/Vilhelm

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson, formaður Miðflokksins, mætti í veisluna en hann var á samkomunni á Klaustri sem náðist á upptöku.

Hvorki hefur náðst í Bergþór Ólason, Gunnar Braga né Steingrím J. Sigfússon í gærkvöldi né í morgun vegna málsins.

Uppfært klukkan 11:04
Í fyrri útgáfu fréttarinnar hafði Vísis eftir heimildum að forseti Alþingis hefði tilkynnt þingmönnunum tveimur að nærveru þeirra væru ekki óskað. Það var ekki rétt og er beðist velvirðingar á þessu.

Steingrímur J. Sigfússon, forseti Alþingis, segir í skriflegu svari við fyrirspurn Vísis að hann hafi ekki átt nein samskipti við Bergþór og Gunnar Braga varðandi veisluna á Bessastöðum.

Þá segir Örnólfur Thorsson forsetaritari ekki vita til þess að forseti hafi haft nokkuð með það að gera að fyrrnefndir þingmenn mættu ekki til veislu.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.