Lífið

Vonar að stjörnur sem auglýsa megrunarvörur „skíti í sig á almannafæri“

Sylvía Hall skrifar
Leikkonan segir stjörnur sem auglýsa megrunarvörur ýta undir skaðlegar hugmyndir um líkama kvenna sem hafi slæm áhrif á ungar stúlkur.
Leikkonan segir stjörnur sem auglýsa megrunarvörur ýta undir skaðlegar hugmyndir um líkama kvenna sem hafi slæm áhrif á ungar stúlkur. Getty/NBC
Leikkonan Jameela Jamil, sem fer með hlutverk Tahani í sjónvarpsþáttaröðinni The Good Place, gagnrýndi stjörnur á borð við Cardi B og Kardashian systurnar á Twitter-síðu sinni eftir að Cardi B birti kostaða Instagram-færslu þar sem hún lofaði megrunarte í stuttu myndbandi. Í myndbandinu segist hún hafa náð að losa sig við aukakíló eftir meðgöngu með hjálp tesins og í raun fleiri en hún ætlaði sér.

Jamil birti skjáskot af færslu Cardi B þar sem hún sagðist vona að hún og allar aðrar stjörnur sem auglýstu slíkar vörur myndu „skíta í sig á almannafæri líkt og konurnar sem kaupa vörurnar í alvöru“. Hún dregur í efa að stjörnurnar noti vörurnar í raun og veru og segir þetta vera aðeins til þess fallið að auka tekjurnar.





Í annarri Twitter-færslu hvetur hún fylgjendur stjarnanna að borða frekar grænmeti og trefjar frekar en að treysta á megrunarte. „Þið þurfið trefjar! Ekki eitthvað sem lætur ykkur fá niðurgang daginn sem þið drekkið það og gefur ykkur harðlífi til lengri tíma,“ skrifaði Jamil.





Jamil hefur áður talað gegn slíkum auglýsingum og beindi spjótum sínum að Kardashian systrum fyrr í ár þegar Kim og Khloe auglýstu báðar megrunarvörur. Kim hvatti fylgjendur sína til þess að kaupa sleikjó sem átti að minnka matarlyst á meðan Khloe auglýsti próteinhristinga.

Sjá einnig: Megrunarsleikibrjóstsykur Kim Kardashian lagðist illa í aðdáendur

„Þessi vara, sem þú þarft að nota samhliða einkaþjálfara, næringarfræðingi og lýtalækni, er á útsölu,“ skrifaði Jamil við færslu sína um Khloe Kardashian og ýjaði að þeirri staðreynd að Khloe hefur aðgang að þessum úrræðum ólíkt þeim konum sem munu treysta á slíkar vörur.








Tengdar fréttir






Fleiri fréttir

Sjá meira


×