Innlent

Opna neyðarskýli fyrir fimmtán unga fíkla

Elín Margrét Böðvarsdóttir skrifar

Pláss verður fyrir fimmtán unga vímuefnaneytendur í nýju neyðarskýli við Grandagarð sem Reykjavíkurborg hyggst opna á næsta ári. Þá stendur til að opna athvarf fyrir tvígreindar konur með geð- og fíknisjúkdóma. Borgarráð samþykkti kaup á húsnæði undir neyðarskýlið í dag.

„Þetta er hugsað fyrir unga karla. Það eru fleiri í þeim hóp, ungir vímuefnaneytendur eru fleiri karlar en við höfum einnig samþykkt núna í fjárhagsáætlun að opna á næsta ári heimili fyrir tvígreindar konur sem eru þá konur á öllum aldri,“ segir Heiða Björg Hilmisdóttir, borgarfulltrúi og formaður velferðarráðs Reykjavíkurborgar. 

Ekki stendur til að gera breytingar á starfsemi gistiskýlisins við Lindargötu við opnun nýja gistiskýlisins að sögn Heiðu Bjargar en stefnt er að því að hægt verði að taka það í notkun um mánaðamótin mars, apríl. „Fram að þessari opnun þá ætlum við að reyna að sjá til þess að gistihúsið á Lindargötu anni þeirri eftirspurn sem er þannig að það standist að enginn þurfi að sofa hér utan dyra. En við vonumst til þess að þetta nýja neyðarskýli í rauninni bara létti aðeins á starfseminni þar.“

Ætlar hún að kostnaður vegna nýja skýlisins verði vel á annað hundrað milljónir og rekstrarkostnaður yfir hundrað milljónir á ári. Þá stendur yfir útboð í uppbyggingu smáhýsa fyrir heimilislausa sem koma á fyrir á nokkrum stöðum í borginni og verða tilboð opnuð um miðjan desember.

„Við erum að festa lóðir, það verður kynnt sem sagt fyrir íbúum í kring þar sem að fyrirhugað verður að koma þeim fyrir fljótlega og við vonumst til þess að vera búin að koma þeim fyrir í mars, apríl á næsta ári,“ segir Heiða Björg.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.