Innlent

Bein útsending: Kvöldfréttir Stöðvar 2

Birgir Olgeirsson skrifar
Áhöfn sementsflutningaskipsins Fjordvik sem strandaði í Helguvík hefur óskað eftir að fá að nálgast persónulega muni sína um borð. Þá aðstoðuðu skipstjóri og stýrimaður skipsins björgunarteymi á staðnum í dag. Byrjað var að dæla olíu úr skipinu um miðjan dag. Gat virðist vera á skrokk skipsins og sjór hefur streymt í lestir og vélarrúm. Við skoðuðum aðstæður í Helguvík í dag.

Það sem af er ári hefur Landlæknisembættið fengið til skoðunar andlát fjörutíu og tveggja einstaklinga þar sem grunur leikur á að viðkomandi hafi látist af völdum eitrunar. Allt árið í fyrra hafði embættið þrjátíu og fjögur mál til skoðunar. Við ræðum við verkefnastjóra hjá Embætti landlæknis um málið.

Við hittum reyndan sjósundsgarp sem ráðleggur sundfólki að klæða sig vel. Sjúkrabifreiðar hafa verið kallaðar til nánast daglega að undanförnu vegna sjósundsfólks sem hefur ofkælst.

Kærumálum fyrir úrskurðarnefnd um viðskipti við fjármálafyrirtæki hefur fækkað mikið á síðustu árum eftir að hafa náð algjöru hámarki eftir hrun en á árinu 2012 fóru kærur til nefndarinnar yfir tvö hundruð. Fækkun mála er vísbending um aukið traust almennings til bankanna, segir aðstoðarforstjóri FME.

Þjóðminjasafnið var óvenju fullt af fornmunum í dag þegar gestum bauðst að koma eigin gripi til greiningar. Það var þó ekkert verðmat upp úr sérfræðingum safnsins að hafa þegar fréttastofa leit við í dag.

Þetta og margt fleira í kvöldfréttum Stöðvar 2 klukkan hálf sjö.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×