Innlent

Myndband sýnir ferðamenn hætt komna í miklum öldugangi við Reynisfjöru

Kristín Ólafsdóttir skrifar
Nokkrir ferðamannanna virðast hrasa þegar aldan skellur á þeim. Engan sakaði þó í umræddu atviki, að sögn Instagram-notandans sem birti myndbandið.
Nokkrir ferðamannanna virðast hrasa þegar aldan skellur á þeim. Engan sakaði þó í umræddu atviki, að sögn Instagram-notandans sem birti myndbandið. Instagram/Erica Mengouchian

Litlu mátti muna að ferðamenn færu í sjóinn við Reynisfjöru á dögunum í miklum öldugangi. Atvikið náðist á myndband sem birt var á Instagram á laugardag en síðustu ár hafa ítrekað verið fluttar fréttir af óförum ferðamanna á svæðinu.

Óvíst er hvenær myndbandið er tekið en það var birt á Instagram-reikningi ljósmyndarans Ericu Mengouchian fyrir þremur dögum. Í því sést fjöldi ferðamanna virða fyrir sér brimið í Reynisfjöru. Nokkrir þeirra ná ekki að forða sér áður en stór alda skellur á þeim og í lok myndbandsins sést að viðstaddir taka á rás undan sjónum og upp með ströndinni. Engin slys virðast þó hafa orðið á fólki, ef marka má textann sem Mengouchian skrifaði við myndbandið.

„Brjálaðar öldur/veður! Þetta land er enginn brandari og þetta fólk veitir viðvörunarskiltunum ekki athygli. Sem betur fer komust allir aftur á land heilu og höldnu,“ skrifar Mengouchian við myndbandið, sem sjá má hér fyrir neðan. Fréttastofa hefur sent Mengouchian fyrirspurn vegna málsins.

Svörtu sandarnir í Reynisfjöru og nágrenni eru einn vinsælasti ferðamannastaður landsins. Ítrekað hafa borist fréttir af því að ferðamenn hafi verið hætt komnir í fjörunni. Í janúar árið 2017 var greint frá því að barn á leikskólaaldri hefði verið hársbreidd frá því að hafna í sjónum í Reynisfjöru og þá voru þýsk hjón hætt komin á sömu slóðum árið 2008 þegar alda tók þau með sér.

Nokkur banaslys hafa einnig orðið í Reynisfjöru og nærliggjandi fjörum síðustu ár. Bandarísk kona á áttræðisaldri beið bana þegar brimalda hrifsaði hana út á dýpið árið 2007. Árið 2016 lést kínverskur ferðamaður um fertugt þegar stór alda sló honum í bergið. Síðast varð banaslys tengt briminu í janúar í fyrra þegar þýsk kona fór í sjóinn við Kirkjufjöru.

Ferðaþjónustuaðilar hafa kallað eftir því að gerðar verði frekari öryggisráðstafanir í Reynisfjöru og nærliggjandi fjörum vegna tíðra slysa. Lögregla hafði eftirlit með svæðinu um tíma eftir banaslysið í Reynisfjöru árið 2016 og þá var komið upp viðvörunarskiltum vegna slysahættu við sjóinn sama ár.


Tengdar fréttir

Varað við óvenjuháum öldum í Reynisfjöru

Spáð er allt að sex til sjö metra háum öldum í Reynisfjöru og nágrenni á morgun. Veðurfræðingur segir ástæðu til að vara við sjóganginum og mögulega loka fjörunum fyrir umferð.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.