Innlent

Rigning og rok í helgarkortunum

Sunna Kristín Hilmarsdóttir skrifar
Það verður hlýtt en blautt um helgina.
Það verður hlýtt en blautt um helgina. vísir/hanna

Það verður vindasamt og blautt víða um land um helgina ef marka má veðurspá Veðurstofu Íslands. Í hugleiðingum veðurfræðings á vef Veðurstofunnar segir að í dag verði stíf suðaustanátt sunnanlands með rigningu á köflum en hægari vindur og bjart víða norðan lands.

Í nótt á svo að hvessa úr suðaustri og mun vindur jafnvel ná stormstyrk í Öræfum og Mýrdal. Seinni partinn mun svo draga heldur úr vindi nema á Vestfjörðum þar sem mun herða á honum.

Upp úr miðnætti leggst svo þétt úrkomusvæði að austanverðu landinu. Því er spáð að það rigni í framhaldinu talsvert á Suðausturlandi og Austfjörðum og áfram til sunnudags, þó að heldur hafi dregið úr rigningunni þá.

Um helgina má því búast við vatnavöxtum suðaustan lands og eru ferðamenn beðnir að hafa það í huga. Það verður hlýtt í veðri fram á sunnudag en þá fer að kólna, einkum norðan til.

Veðurhorfur næstu daga:

Austlæg átt, 10-18 m/s, hvassast við fjöll syðst á landinu og rigning eða súld með köflum, en hægari fyrir norðan og bjart með köflum. Vaxandi norðaustanátt í nótt, 13-23 m/s á morgun, hvassast á SA-landi um morguninn, en á Vestfjörðum um kvöldið. Rignir á A-verðu landinu í nótt og á morgun, talsverð eða mikil úrkoma SA-lands, en annars úrkomulítið. Hiti 2 til 10 stig, hlýjast með S-ströndinni.

Á laugardag:
Austan og norðaustan 13-20 m/s, hvassast SA-til um morguninn, en á Vestfjörðum um kvöldið. Víða rigning, talsverð A-lands, en úrkomulítið SV-til. Hiti 2 til 9 stig, hlýjast syðst.

Á sunnudag:
Norðaustan 13-20 m/s og rigning eða slydda NV-til, en annars austlæg átt, 8-13 og væta með köflum. Hiti 2 til 7 stig að deginum, en frystir inn til landsins um kvöldið.

Á mánudag:
Stíf norðaustanátt NV-lands, en annars mun hægari vindur. Rigning eða slydda á N- og A-verðu landinu, annars yfirleitt bjartviðri. Hiti 0 til 5 stig.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.