Menning

Kona fer í stríð hlýtur Kvik­mynda­verð­laun Norður­landa­ráðs

Margrét Helga Erlingsdóttir skrifar
Kvikmyndin hlaut verðlaunin fyrir leiftrandi skemmtilega meðferð á hápólitísku viðfangsefni.
Kvikmyndin hlaut verðlaunin fyrir leiftrandi skemmtilega meðferð á hápólitísku viðfangsefni. Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs

Kvikmyndin Kona fer í stríð hlaut í kvöld kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs 2018. Benedikt Erlingsson er leikstjóri myndarinnar og skrifaði handritið ásamt Ólafi Agli Egilssyni.

Kvikmyndin hlaut verðlaunin fyrir leiftrandi skemmtilega meðferð á hápólitísku viðfangsefni.

Benedikt, Ólafur Egill og framleiðendurnir Marianne Slot og Carine Leblanc tóku við verðlaununum á verðlaunaafhendingu Norðurlandaráðs í Óperunni í Ósló.

Verðlaunaféð er 350 þúsund danskar krónur sem skiptist jafnt milli leikstjóra, handritshöfunda og framleiðenda sem undirstrikar þá staðreynd að kvikmyndagerð sem listgrein er fyrst og fremst afurð náinnar samvinnu.

Halldóra Geirharðsdóttir fer með hlutverk Höllu, konu á fimmtugsaldri, sem brennur fyrir öllu sem viðkemur umhverfismálum. Hún hefur upp á sitt einsdæmi sagt áliðnaðinum á Íslandi stríð á hendur en sökum þess að Halla virðist lifa rólyndislífi grunar hana enginn.

Sjá einnig: Auður Ava hlýtur Bókmenntaverðlaun Norðurlandaráðs

Aðstandendur kvikmyndarinnar veita hinum virtu verðlaunum viðtöku. Kvikmyndaverðlaun Norðurlandaráðs

Í rökstuðningi dómnefndarinnar fyrir vali þeirra kemur fram að hún kunni vel að meta það sjálfsöryggi sem Benedikt Erlingsson sýndi við leikstjórn kvikmyndarinnar.

„Raunar má segja að Benedikt Erlingsson, sem leikstýrði myndinni og skrifaði einnig handrit ásamt Ólafi Egilssyni, sýni jafnmikla dirfsku og aðalpersóna myndarinnar.“

Bíó Paradís mun sýna Kona fer í stríð næstu daga með enskum texta.

Þetta er í 15. sinn sem verðlaunin eru veitt kvikmynd sem hefur vakið athygli fyrir gæði og sterka skírskotun til listrænnar hefðar á Norðurlöndum. Tvisvar áður hefur íslensk kvikmynd hlotið verðlaunin; Benedikt Erlingsson og Friðrik Þór Friðriksson veittu verðlaununum viðtöku árið 2014 fyrir Hross í oss og Dagur Kári, Agnes Johansen og Baltasar Kormákur veittu þeim viðtöku árið 2015 fyrir Fúsa.

Myndin er framlag Íslands til Óskarsverðlaunanna á næsta ári og er fyrsta íslenska kvikmyndin til að hljóta tilnefningu til LUX verðlauna Evrópuþingsins. Hún er  einnig í forvali fyrir Evrópsku kvikmyndaverðlaunin.


Tengdar fréttirAthugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.