Lífið

„Hafði ekki tækifæri til að fyrirgefa, því hún bara dó“

Stefán Árni Pálsson skrifar
Valgeir Skagfjörð sagði sögu sína í Íslandi í dag í gær.
Valgeir Skagfjörð sagði sögu sína í Íslandi í dag í gær.
Valgeir Skagfjörð er einn af þessum listamönnum sem alltaf heldur í jákvæðnina og gefst aldrei upp sama hversu erfitt sem lífið getur stundum verið.

Valgeir átti erfiða æsku þar sem móðir hans var bæði mikill alkóhólisti og ofbeldisfull og með undirliggjandi geðsjúkdóm.

Faðir hans bjó í Bretlandi og sinnti honum aldrei. Valgeir bjó einnig við ofbeldi af stjúpföður sínum. Vala Matt sótti Valgeir heim í Íslandi í dag í gærkvöldi þar sem hann sagði henni brot af sinni sögu og hvernig fyrirgefningin er lykilatriði til þess að verða hamingjusamur.

„Það er hægt að segja frá þessu á tvennan hátt. Einfalda setningin er að ég ólst upp í partýi. Hin setningin er að ég bjó við vanrækslu,“ segir Valgeir í samtali við Völu Matt.

Valgeir bjó við mikið ofbeldi sem barn.
„Móðir mín var alkahólisti með undirliggjandi geðsjúkdóm og persónuraskanir sem var erfitt að búa við en maður lærði samt að lifa með því. Börn hafa eiginleika til þess að lifa af hörmungar en þetta er einhverskonar áfallastreyturöskun sem ég verð fyrir sem hefur fylgt mér lengi. Þú lærir að beita þig einhverskonar innri heilaþvotti sem gengur út að það að þú trúir því að þetta sé eðlilegt ástand.“

Hann segist ekki hafa í annað hús að sækja í og ekkert val um það hvernig líf hans var.

„Ég var háður fullorðna fólkinu og svo bregst fullorðna fólkið, og ég er bara sjálfala drengur að berjast við það að halda heimili með yngri systkinum mínum. Mamma var mjög slæm og mjög veik. Hún var mjög ung þegar hún átti mig, hún var átján ára þegar hún eignast mig. Við jörðuðum hana árið 1997 og okkar systkinunum taldist til þegar við vorum að taka þetta saman að hún hefði átt átta menn.“

Valgeir segist hafa þurft að fyrirgefa einum af mörgum stjúpföður sínum ofbeldið.

Hér má sjá Valgeir með móður sinni á sínum tíma.
„Ég skrifaði honum bréf einhvertímann sem hann fær aldrei, það var bara fyrir mig. Það er fullorðinn maður og þú ert sjö átta ára og þér er fleygt um íbúðina og það er sparkað í þig eins og þú sért kartöflupoki, þú ert laminn til blóðs og háttaður upp í rúm. Þú ert látinn borða kvöldmatinn þinn ofan í baðkari í regngalla út af því að þú sullaðir á þig. Það voru svona uppeldisaðferðir sem átti að nota á mig, en ég var bara venjulegur strákur.“

Hann segir að líf móður hennar hafi alltaf gengið út á það að finna sér einhverja menn til að sjá sér fyrir lifibrauði.

„Ég þurfti stundum að hugsa um hana, það er stundum hlutverk alkabarnanna. Það var mitt hlutverk að hjúkra henni þegar hún var timbruð of færa henni afréttara og halda um ennið á henni þegar hún var að kasta upp. Stundum var ekkert til og við vorum einfaldlega gerð út til að ræna kardímommudroppum  og það er eitthvað sem varð að gera, því það var ekki hægt að hafa hana í þessu ástandi.“

Tók ákvörðun um að vera hamingjusamur og frjáls

Valgeir segist hafa orðið að finna í sjálfum sér undanfarin ár og það til að gera upp fyrri tíma.

„Ég hætti að drekka í kringum 1995 og í þeirri vinnslu er ég að hreinsa upp lífið og fór meðal annars til sálfræðing sem sýndi mér það hvernig móðir mín hafði reynt að stjórna lífi mínu, því ég var að burðast með skömm og sektarkennd. Þá tók ég ákvörðun, hvort ég ætlaði að vera gramur, bitur og reiður eða hamingjusamur og frjáls. Hann fann það að ég þurfti að fyrirgefa henni. Ég hafði ekki tækifæri til að fyrirgefa, því hún bara dó og ég gat ekki talað við hana. Ég þurfti bara að gera það á annan hátt og það gerðist bara með bæn og ég skrifaði upp lista á blað, fór upp á fjall með þetta og reif blaðið upp í vindinn.“

Þá hafi hann verið laus undan skömminni, sektarkenndinni og sjálfásökununum en hér að neðan má sjá innslagið síðan í gær.






Fleiri fréttir

Sjá meira


×