Innlent

Lesfimi íslenskra grunnskólabarna eykst

Atli Ísleifsson skrifar
Samkvæmt niðurstöðum prófanna sem lögð voru fyrir í síðasta mánuði er breytingin mest hjá nemendum í 8. bekk, sem að meðaltali lásu þremur orðum meira á mínútu en haustið 2017.
Samkvæmt niðurstöðum prófanna sem lögð voru fyrir í síðasta mánuði er breytingin mest hjá nemendum í 8. bekk, sem að meðaltali lásu þremur orðum meira á mínútu en haustið 2017. Getty

Lesfimi íslenskra skólabarna jókst marktækt milli ára samkvæmt lesfimiprófi Menntamálastofnunar sem lagt var fyrir nemendur í öllum bekkjum grunnskóla í síðasta mánuði.

Þetta kemur fram í tilkynningu frá Menntamálastofnun. Þar segir að niðurstöðurnar gefi vísbendingar um að aðgerðir til að auka lestrarfærni og áhuga barna skili árangri.

„Skólaárið 2018-´19 er þriðja skólaárið sem lesfimipróf eru lögð fyrir en það er gert þrisvar á hverju skólaári – í september, janúar og maí – til að fylgjast með námsframvindu hvers nemanda. Fyrsta skólaárið var þátttaka lítil en hún hefur aukist mikið milli ára og fyrir vikið er samanburður orðinn framkvæmanlegur.

Samkvæmt niðurstöðum prófanna sem lögð voru fyrir í síðasta mánuði er breytingin mest hjá nemendum í 8. bekk, sem að meðaltali lásu þremur orðum meira á mínútu en haustið 2017. Nemendur í 2., 3., 5., 6., 7. og 10. bekk lásu einu til tveimur orðum meira að meðaltali en fyrir ári en nemendur í 1., 4. og 9. bekk lásu jafnmörg orð að meðaltali og haustið 2017. Í öllum tilvikum var árangurinn því jafn góður eða betri en í sömu bekkjum í fyrra,“ segir í tilkynningunni.

Þjóðarsáttmálinn þriggja ára
Mennta- og menningarmálaráðuneytið og sveitarfélög í landinu gerðu með sér svokallaðan Þjóðarsáttmála um læsi haustið 2015 og var markmið sáttmáls að tryggja að öll börn gætu við lok grunnskóla lesið sér til gagns enda þykir sannreynt að lífsgæði og læsi haldist í hendur.

Lesfimiprófin mæla lestrarnákvæmni og lestrarhraða barna en hvorki lesskilning, orðaforða né ritun. Nánar má lesa um niðurstöðurnar á heimasíðu Menntamálastofnunar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.