Innlent

Líklegt að fleiri mál verði tekin til rannsóknar

Aðsetur starfsmanna Manngildis í Stangarhyl þar sem lögreglan réðst til inngöngu í gærmorgun
Aðsetur starfsmanna Manngildis í Stangarhyl þar sem lögreglan réðst til inngöngu í gærmorgun Vísir/Jóhann K. Jóhannsson

Gæsluvarðhaldsbeiðni yfir einum þeirra tíu sem handteknir voru í umfangsmiklum aðgerðum Lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í gærmorgun, var staðfest fyrir Héraðsdómi Reykjavíkur í gærkvöldi. Yfirlögregluþjónn segir ekki útilokað að sambærileg mál verði tekin til skoðunar og að ráðist verði í frekari aðgerðir.

Maðurinn var úrskurðarður í gæsluvarðhald í viku vegna málsins í gærkvöldi. Hann gat einn þeirra níu erlendra verkamanna sem málið snýr að ekki gert fyllilega grein fyrir sér með sannarlegum hætti og getur lögregla ekki staðfest aldur hans og þjóðerni. Hinir átta gátu sannað hvernig þeir voru og hefur verið gert að tilkynna sig á lögreglustöð með reglubundnum hætti á meðan málið er til rannsóknar.

Mennirnir eru úkraínskir ríkisborgarar og telur lögreglan að þeir hafi komið inn á Schengen-svæðið á sínum skilríkjum en orðið sér svo fölsuð litháísk skilríki og á grundvelli þeirra sótt um íslenskar kennitölur. Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, segir í samtali við fréttastofu að málið sé búið að vera til rannsóknar í þó nokkurn tíma, en nýjasta málið sé síðan í apríl.

Ásgeir Þór Ásgeirsson, yfirlögregluþjón hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinuVísir/Stöð 2

„Við erum búnir að vera að skoða þetta mál í um það bil fjórar vikur. Búnir að vera vinna heimavinnuna og byggja undir aðgerðir í fjórar vikur,“ sagði Ásgeir Þór Ásgeirsson, Yfirlögregluþjónn hjá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Á fjórða tug lögreglumanna, frá Lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu, Suðurnesjum og Ríkislögreglustjóra tóku þátt í aðgerðum. Þáttur starfsmannaleigunnar Manngildis og eiganda hennar í málinu er óljós að sögn Ásgeirs en verkamennirnir voru hér á landi á vegum leigunnar.

Ásgeir segir að miðað við rannsókn og umfang málsins í gær að þá muni fleiri mál af þessum toga verði tekin til rannsóknar og líklegt að ráðist verði í frekari aðgerðir.

„Ef að frekari rannsóknir á umsóknum um Íslenskar kennitölur gefa til kynna  að það þurfi að fara í lögregluaðgerðir að þá verður það gert,“ segir Ásgeir.

Ásgeir segir að koma verði í veg fyrir að erlendir ríkisborgarar geti fengið íslenskar kennitölur með sviksömum hætti.

„Við teljum það að með því að efla skilríkjarannsóknargetu lögreglunnar og binda þannig um verklag að það fái engin íslenska kennitölu nema að persónan og skilríkin séu rannsökuð að þá mætti klárlega fækka þessum málum eða jafnvel koma í veg fyrir þau,“ segir Ásgeir. 


Tengdar fréttir

Einn af tíu í gæsluvarðhaldi

Farið hefur verið fram á gæsluvarðhald yfir erlendum karlmanni sem handtekinn var í umfangsmiklum aðgerðum lögreglunnar á höfuðborgarsvæðinu í morgun.



Athugið. Vísir hvetur lesendur til að skiptast á skoðunum. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Lesendur skulu halda sig við málefnalega og hófstillta umræðu og áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ummæli og/eða umræðu sem fer út fyrir þau mörk. Vísir mun loka á aðgang þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni eða gerast ítrekað brotlegir við ofangreindar umgengnisreglur.

Fleiri fréttir

Sjá meira


×