Innlent

Breikkun þjóðvegarins bætir öryggið í Dölum

Kristján Már Unnarsson skrifar
Þjóðvegurinn um Saurbæ breikkar um tvo metra, úr 5,5 metrum upp í 7,5 metra.
Þjóðvegurinn um Saurbæ breikkar um tvo metra, úr 5,5 metrum upp í 7,5 metra. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Öryggi vegfarenda hefur verið stórbætt á Vestfjarðavegi um Dalasýslu með langþráðum lagfæringum á sex kílómetra kafla um Saurbæ. Sýnt var frá framkvæmdum í fréttum Stöðvar 2. 

Þetta er vegurinn sunnan Gilsfjarðarbrúar meðfram Skriðulandi um Hvolsdal en þótt hann væri malbikaður þá var hann á löngum köflum svo mjór, aðeins fimm og hálfur metri á breidd, að ökumenn á venjulegum fólksbílum áttu í vandræðum þegar þeir mættu öðrum bílum, og sérstaklega flutningabílum. Þá var sérlega varasöm blindhæð við bæinn Máskeldu.

Meginhlutinn af Vestfjarðaumferðinni fer um þennan veg í gegnum Dalasýslu. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

En nú er verktakinn Borgarverk að mestu búinn að ljúka endurbótum á þessum 6,4 kílómetra langa kafla Vestfjarðavegar. Búið er að taka af blindhæðina og breikka veginn um tvo metra, upp í sjö og hálfan metra, þannig að hér eftir ættu ökumenn ekki að þurfa að skjálfa á beinunum þegar þeir mæta öðrum bílum. 

Vegagerðin samdi við lægstbjóðandann, Borgarverk, á grundvelli 177,7 milljóna króna tilboðs. Alls buðu fimm fyrirtæki í verkið en tilboð voru opnuð í september í fyrra. 

Starfsmenn Borgarverks voru að leggja lokahönd á lagningu fyrra lags klæðningar á veginn. Stöð 2/Egill Aðalsteinsson.

Malarefni í námu, sem upphaflega stóð til að nota, reyndist hins vegar ónothæft og þurfti að sækja efni í aðra námu mun fjær. Af þeim sökum er ljóst að verkið mun reynast talsvert dýrara en sem nemur tilboðsfjárhæð, samkvæmt upplýsingum Sæmundar Kristjánssonar, yfirverkstjóra hjá Vegagerðinni í Búðardal. 

Hér má sjá frétt Stöðvar 2:Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.