Innlent

Skoða að senda Íslendinga til Indónesíu

Gunnar Reynir Valþórsson skrifar
Eyðileggingin í Indónesíu er mikil.
Eyðileggingin í Indónesíu er mikil. Getty/Carl Court
Til athugunar er að senda Íslendinga á hamfarasvæðin í Indónesíu með samtökunum NetHOPE. Þetta herma heimildir fréttastofu. Hlutverk þeirra er meðal annars að tryggja fjarskiptasamband á svæðinu.

Staðfest er að 844 hafi látist af völdum jarðskjálftans sem reið yfir Indónesíu á föstudag. Þetta kom fram á blaðamannafundi indónesískra yfirvalda í morgun, en ljóst er að sú tala á eftir að hækka, þar sem óttast er hundruð séu grafnir í leðju og drullu á hamfarasvæðunum.

Sutopo Purwo Nugroho, talsmaður yfirvalda, sagði að stórvirkar vinnuvélar væru nú komnar að þau svæði sem urðu hvað verst úti í skjálftanum en þær verða til að mynda notaðar í borginni Palu til þess að leita í rústum verslunarmiðstöðvar og hótels.

Ekki hefur verið leitað í rústum bygginganna þar sem þær eru taldar óstöðugar þannig að ekki er óhætt fyrir björgunarfólk að fara þangað inn. Sutopo sagði að yfirvöld enn takmarkaðar upplýsingar um ástandið á þeim svæðum sem fóru verst út úr skjálftanum og þeirri gríðarmiklu flóðbylgju sem fylgdi í kjölfarið. Þá liggja rafmagns- og símalínur enn niðri í Palu, Donggala, Sigi og Parigi Moutong.

Samkvæmt því sem kom fram á blaðamannafundinum voru 144 erlendir ríkisborgarar staddir í Palu og Donggala þegar jarðskjálftinn reið yfir. Í morgun hófst greftrun hinna látnu en þeir verða jarðsettir í fjöldagröfum til að draga úr líkum á sjúkdómum á svæðinu.

Indónesísk stjórnvöld hafa ákveðið að þiggja boð annarra ríkja um björgunaraðstoð en neyðaraðstoð hefur borist illa og seint til skjálftasvæðanna, bæði vegna vega sem eyðilögðust í hamförunum sem og vegna þess hversu seint yfirvöld í landinu tóku ákvörðun um að þiggja aðstoð.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×