Erlent

Lööf opnar á samstarf með Jafnaðarmönnum

Atli Ísleifsson skrifar
Annie Lööf er formaður Miðflokksins.
Annie Lööf er formaður Miðflokksins. Vísir/EPA
Annie Lööf, formaður Miðflokksins í Svíþjóð, segir að leiðtogar flokka verði að byrja að ræða hver við annan til að hægt verði að mynda ríkisstjórn í landinu. Lööf vonast til að nýr forseti sænska þingsins, Andreas Norlén, muni sem fyrst veita einhverjum umboð til að mynda stjórn og þannig þvinga menn til viðræðna.

Jafnaðarmenn, með forsætisráðherrann fyrrverandi, Stefan Löfven, í forystu, hafa sagt það vera nauðsynlegt að leiðtogar ræði saman við leiðtoga flokka í andstæðri blokki í sænskum stjórnmálum. Lööf segist opin fyrir slíkum samtölum, en að þau geti ekki einungis gengið út á að tryggja að Jafnaðarmenn verði við völd.

Opnar á stjórn með Jafnaðarmönnum

Lööf sagði að loknum fundi með Norlén í morgun að hún vilji helst sjá fjögurra flokka stjórn bandalags borgaralegu flokkanna (Alliansen). Takist það ekki vilji hún sjá samsteypustjórn eins eða fleiri borgaralegu flokkanna og Jafnaðarmannaflokkins.

Snúin staða er uppi í sænskum stjórnmálum eftir kosningarnar 9. september síðastliðinn þar sem rauðgrænu flokkarnir hlutu 144 þingsæti, en bandalag borgaralegu flokkanna 143. Svíþjóðardemókratar hlutu 62 þingsæti.

„Bjóði Löfven mig á til fundar þá mun ég koma, en ég verð með Allianshattinn minn á mér,“ segir Lööf. Löfven hefur talað fyrir því að Jafnaðarmenn myndi stjórn með Miðflokknum og Frjálslyndum, sem báðir tilheyra bandalagi borgaralegu flokkanna.

Vill að Kristersson fái umboðið

Ebba Busch Thor, leiðtogi Kristilegra demókrata, segir að hún telji að þingforsetinn eigi að veita Ulf Kristersson, leiðtoga hægriflokksins Moderaterna, umboð til stjórnarmyndunar. Hún segir borgaralegu flokkana fjóra saman reiðubúna til viðræðna við Löfven. Löfven segist þó ekki hafa áhuga á slíkum viðræðum.

Jimmie Åkesson, leiðtogi Svíþjóðardemókrata, segir flokk sinn reiðubúinn að styðja við tveggja flokka stjórn Moderaterna og Kristilegra demókrata eða þá eins flokks stjórn Moderaterna.

Það er þingforseta að veita einhverjum umboð til stjórnarmyndunar eftir viðræður við leiðtoga flokkanna. Þingið greiðir svo atkvæði um viðkomandi. Nái þingið ekki að samþykkja þann sem þingforseti hefur tilnefnt í fjórum tilraunum skal boða til nýrra kosninga í landinu.


Tengdar fréttir




Fleiri fréttir

Sjá meira


×