Innlent

Engar íbúðarhæfar íbúðir á lausu hjá Félagsbústöðum í lok ágúst

Sylvía Hall skrifar
Kolbrún Baldursdóttir furðar sig á því hve margar íbúðir eru í standsetningarferli þegar margir búa í mygluðum íbúðum.
Kolbrún Baldursdóttir furðar sig á því hve margar íbúðir eru í standsetningarferli þegar margir búa í mygluðum íbúðum. Vísir/Vilhelm
Níutíu íbúðir voru í standsetningu í lok ágústmánaðar hjá Félagsbústöðum og engar íbúðarhæfar íbúðir á lausu hjá félaginu. Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks Fólksins, lagði fram fyrirspurn um hreyfingu á íbúðum Félagsbústaða og var þetta meðal þess sem kom fram í svari félagsins.

Í fyrirspurninni óskaði Kolbrún eftir svörum varðandi fjölda íbúða sem losnuðu hjá félaginu á síðasta ári og ástæður þess, hve langur tími liði frá því að nýr leigjandi tæki við íbúð og hve margar íbúðir væru lausar hjá félaginu í ágúst og september. 

Í svari Félagsbústaða segir að 270 íbúðir komu til úthlutunar hjá félaginu á síðasta ári að milliflutningum meðtöldum, 173 almennar íbúðir, 60 þjónustuíbúðir aldraðra og 37 sértæk búsetuúrræði. Þá kom einnig fram að um 40% þeirra sem flytja úr íbúðum Félagsbústaða fara á almennan markað, 20% flytja í aðra íbúð á vegum félagsins og 10% fara annað eða eru bornir út úr íbúðum sínum. 

Furðar sig á fjölda íbúða í standsetningu þegar margir fá ekki viðgerðir

Eftir að íbúðir losna eru þær standsettar að nýju og tekur standsetningarferlið að jafnaði 1-3 mánuði að sögn Félagsbústaða. Líkt og áður sagði voru um níutíu íbúðir í því ferli undir lok ágústmánaðar en að jafnaði eru þær íbúðir sem eru í standsetningarferli um sjötíu talsins hverju sinni. Þær voru því töluvert fleiri í ágúst. Þá furðaði Kolbrún sig á þessum svörum og segir þetta skjóta skökku við í ljósi þess að hún hafi heimildir fyrir því að fólk sé látið búa í mygluðum íbúðum og fái ekki fullnægjandi viðgerðir. Hún segir marga hafa neyðst til þess að fara í dómsmál vegna slíkra mála. 

Kolbrún hefur lagt fram fyrirspurnir varðandi svör félagsbústaða og óskar eftir svörum hvers lags viðgerðir fari fram á þessum íbúðum og hve lengi þær munu standa yfir. 
Fleiri fréttir

Sjá meira


×

Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.