Innlent

Varaforseti Alþingis og félagsmálaráðherra í nafnarugli

Heimir Már Pétursson skrifar
Einum varaforseta Alþingis og félagsmálaráðherra varð báðum fótaskortur á tungunni þegar þeir mundu ekki hvað menn hétu í fyrirspurnatíma á Alþingi í dag.

Guðjón S. Brjánsson fyrsti varaforseti Alþingis átti í erfiðleikum með að muna nafn félagsmálaráðherra þegar hann kynnti ráðherrann til leiks til að svara fyrirspurn frá Oddnýju G. Harðardóttur þingmanni Samfylkingarinnar. 

Til máls tekur háttvirtur félags- og jafnréttismálaráðherra,” sagði Guðjón og hikaði allgóða stund. Og hann heitir Ásmundur Einar Daðason, bætti Guðjón síðan við eftir að hafa skoðað nafnalista þingmanna.

En ekki greyptist nafn ráðherrans í minni fyrsta varaforseta, því svona kynnti hann ráðherrann til leiks öðru sinni í umræðunni. Þá tekur til máls háttvirtur félags- og jafnréttismálaráðherra Ásmundur Einar Davíðsson.“

„Reyndar Daðason virðulegur forseti. En ég tek viljann fyrir verkið, svaraði Ásmundur Einar. Fyrsti forseti hafði reyndar einnig í tvígang kynnt háttvirtan ráðherra í stað hæstvirtan ráðherra eins og þingsköp segja til um, en vandaði sig sérstaklega þegar hann kynnti félagsmálaráðherra til leiks í þriðja sinn að lokinni fyrirspurn Guðmundar Inga Kristinssonar þingmanns í Flokki fólksins. 

Þá tekur til máls hæstvirtur félags- og jafnréttisráðherra og nú vandar forseti sig alveg sérstaklega; hann heitir án nokkurs vafa Ásmundur Einar Daðason. Bið ég hann velvirðingar á fyrri mismælum, sagði Guðjón.

Og Ásmundur Einar svaraði um hæl en hrasaði einnig á tungunni.

„Virðulegi forseti, hæstvirtum forseta er hér með fyrirgefið. Ég vil þakka háttvirtum þingmanni Guðmundi Inga Guðbrandssyni, sagði Ásmundur Einar og uppskar mikinn hlátur í þingsal. Kristinssyni. Nú fór þingmaðurinn illa. Ég vil biðja háttvirtan þingmann og þingsal velvirðingar á þessum mistökum. Sá sem hér stendur er engu skárri en hæstvirtur forseti, sagði Ásmundur Einar Daðason.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×