Innlent

Gert ráð fyrir 300 milljónum í kostnað og ráðgjöf við þyrlukaup

Sigurður Mikael Jónsson skrifar
Það mun kosta sitt að endurnýja þyrluflota LHG.
Það mun kosta sitt að endurnýja þyrluflota LHG. Vísir/Vilhelm

„Talan byggist á vinnu stýrihóps sem innanríkisráðherra skipaði í september 2015 til að tryggja leitar- og björgunarþjónustu innan efnahagslögsögu Íslands til framtíðar með endurnýjun á þyrlum Landhelgisgæslunnar,“ segir Ásgeir Erlendsson, upplýsingafulltrúi Landhelgisgæslunnar (LHG).

Í fjárlagafrumvarpi ríkisstjórnarinnar sem kynnt var á þriðjudag kom fram að samkvæmt fjármálaáætlun 2019-2023 er gert ráð fyrir kaupum á þremur nýjum þyrlum á ríflega 14 milljarða króna. Það gerir um 4,7 milljarða fyrir hverja þyrlu. Þessi mikli kostnaður hefur vakið athygli. Fréttablaðið óskaði eftir upplýsingum um upphæðina.

Ásgeir vísar í skýrslu stýrihópsins sem lagði til að keyptar yrðu þrjár þyrlur af svipaði stærð og LHG er með í sinni þjónustu í dag. Skýrsluhöfundar viðurkenna að tillögurnar útheimti „veruleg fjárútlát ríkissjóðs“.

Áætlað er að þyrlurnar kosti 13,9 milljarða og ofan á það bætist útboðskostnaður og ráðgjöf við útboðsferlið upp á 300 milljónir króna. Alls 14,2 milljarðar. Í skýrslunni segir: „Ekki eru til aðgengilegir „verðlistar“ framleiðenda yfir þyrlur sem eru sérútbúnar til þeirra starfa sem hér um ræðir. Ofangreindar kostnaðartölur byggjast á gagnagrunni frá framleiðendum, sem og upplýsingum frá aðilum sem hafa verið að fjárfesta í nýjum þyrlum á undanförnum árum fyrir hliðstæða starfsemi.“

Kaupin verða boðin út á næsta ári að sögn Ásgeirs og því ekki vitað hvernig þyrlur verða keyptar.Athugið. Allar athugasemdir eru á ábyrgð þeirra er þær rita. Vísir hvetur lesendur til að halda sig við málefnalega umræðu. Einnig áskilur Vísir sér rétt til að fjarlægja ærumeiðandi eða ósæmilegar athugasemdir og ummæli þeirra sem tjá sig ekki undir eigin nafni.

Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.