Innlent

Óskar eftir aukafundi vegna lokunar tjaldsvæðis í Laugardal

Elísabet Inga Sigurðardóttir skrifar
Aðsend mynd
Borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur óskað eftir aukafundi vegna lokunar tjaldsvæðis í Laugardal. Hún segir að tvær tillögur séu að staðsetningu hjólhýsagarðs og bindur vonir við að fundur verði haldinn um málið í næstu viku.

Á föstudaginn fjölluðum við um að ekki standi til að hafa tjaldsvæðið í Laugardal opið heimilislausu fólki í vetur. Hámarksdvalartími á svæðinu verður ein vika og hvorki verður heimilt að vera með hjólhýsi né húsbíla á svæðinu.

Kolbrún Baldursdóttir, borgarfulltrúi Flokks fólksins hefur óskað eftir aukafundi vegna þessa

„Það er semsagt búið að úthýsa þeim frá Laugardalnum frá og með 15. október. Nú bíður okkar að finna aðra staðsetningu í samráði við þennan hóp því þau þurfa að fá góða stasetningu nálægt samgöngum og annarri þjónustu,“ segir Kolbrún Baldursdóttir.

Flokkurinn lagði fram tillögu um að reisa hjólhýsagarð en tillagan er til meðferðar í stýrihópi sem Kolbrún situr í. En hlutverk hópsins er að finna húsnæði fyrir heimilislaust fólk. Þá segir hún að þegar séu komnar hugmyndir að staðsetningu hjólhýsagarðs.

„Það eru hugmyndir að tveimur staðsetningum sem ég held að sé ekki tímabært að nefna. Auðvitað gerum við ekki neitt nema vera með fólkið með okkur. Það skiptir öllu máli að fara ekki fram úr okkur. Við þurfum að setjast niður markvisst og ganga í verkið,“ sagði Kolbrún.

Þá lagði borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins fram tillögu, þann 3. september, þess efnis að fela velferðarsviði að leiða viðræður við Farfugla, rekstaraðila tjaldsvæðisins í Laugardal, um tímabundin sértæk úrræði fyrir fólk í búsetuvandræðum yfir vetrartímann, 15. október-15.mars. Tillögunni var frestað.


Tengdar fréttir

Heimilislausir hafa engan samastað á tjaldsvæðum í vetur

Ekki stendur til að hafa tjaldsvæðið í Laugardal opið heimilislausu fólki í vetur en þeim sem hafast við í hjólhýsum eða tjöldum stendur ekkert annað úrræði til boða. Verkefnastýra Frú Ragnheiðar telur að fólkið muni leita á ýmis svæði í borginni.




Fleiri fréttir

Sjá meira


×