Innlent

Bann við blóðgjöf samkynhneigðra endurskoðað

Sunna Sæmundsdóttir skrifar
Til skoðunar er að breyta reglum sem banna samkynhneigðum karlmönnum að gefa blóð á Íslandi. Málið er í ferli í heilbrigðisráðuneytinu og er niðurstaða væntanleg á næstu vikum eða mánuðum.

Frá og með næstu áramótum mega samkynhneigðir karlmenn gefa blóð í Danmörku, hafi þeir ekki stundað kynlíf með öðrum körlum í fjóra mánuði. Hérlendis er karlmönnum sem einhvern tímann hafa stundað kynlíf með öðrum körlum alfarið bannað að gefa blóð.

Fyrirkomulagið er með þessum hætti þar sem samkynhneigðir karlar eru sagðir vera í svokölluðum áhættuhóp hvað varðar blóðgjafir, þar sem meiri líkur eru taldar á að þeir séu smitaðir af alnæmisveirunni HIV. Samkvæmt tölum frá embætti Landlæknis er hins vegar tilkynnt um álíka mörg tilvik um HIV-veiru í samkynhneigðum og gagnkynhneigðum. Á síðasta ári reyndust alls 150 samkynhneigðir smitaðir en 148 gagnkynhneigðir.

Frá Blóðbankanum.
Fyrirkomulagið hérlendis er reglulega gagnrýnt og segir heilbrigðisráðherra mögulegar breytingar til skoðunar í ráðuneytinu. 

„Ég er að láta skoða það mál og ekki síst í ljósi þess að það urðu breytingar í Danmörku nú á dögunum. Ég hef verið að láta skoða þetta mál alveg frá því að ég tók við embætti, eða mjög snemma á þessu ári," segir Svandís Svavarsdóttir

Hún segir niðurstöðu væntanlega í málið. 

„Ég vænti þess að við sjáum til lands í þessu og að það fæðist einhver ákvörðun á næstu vikum og mánuðum í þeim efnum. Ég er að skoða þetta bæði í samstarfi við sóttvarnarlækni og Blóðbankann," segir Svandís.


Tengdar fréttir

„Ömurlegt, úrelt og örlítið hlægilegt“

Kristín Ólafsdóttir þekkir engan sem er ósammála henni í því að sú regla að samkynhneigðir menn megi ekki gefa blóð sé úrelt, ömurleg og örlítið hlægileg.
Fleiri fréttir

Sjá meira


Velkomin á Vísi. Þessi vefur notar vafrakökur. Sjá nánar.