Innlent

Lilja Rannveig nýr formaður ungra Framsóknarmanna

Atli Ísleifsson skrifar
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir.
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir. Mynd/SUF
Lilja Rannveig Sigurgeirsdóttir var kjörin nýr formaður Sambands ungra Framsóknarmanna (SUF) á 43. Sambandsþingi hreyfingarinnar sem fór fram um helgina í húsakynnum Háskólans á Bifröst.

Í tilkynningu frá sambandinu segir að Lilja hafi hlotið 82,1 prósent greiddra atkvæða.

„Lilja Rannveig er 22 ára nemi í grunnskólafræðum og skólaliði í Grunnskóla Borgarbyggðar. Hún búsett í Bakkakoti í Borgarbyggð með maka sínum, Ólafi Daða, og 8 mánaða syni þeirra, Hauki Axel.

Lilja Rannveig hefur tekið virkan þátt í starfi Framsóknarflokksins, þar á meðal í stjórn SUF ásamt því að vera annar varaþingmaður Framsóknarflokksins í Norðvesturkjördæmi,“ segir í tilkynningunni.

Þar er haft eftir Lilju að hún sé virkilega þakklát fyrir traustið sem sér sé sýnt til þess að gegna embætti formanns sambandsins. „Sambandið fagnar 80 ára afmæli í ár og skipar mikilvægan sess í starfi flokksins. Sem formaður mun ég leggja áherslu á jafnrétti til menntunar, geðheilbrigðismál ungs fólks og umhverfismál. Þá mun ég vinna að því að gera starf SUF sýnilegra út á við og styrkja innra starf SUF.“‘

Eftirtaldir aðilar voru kosnir í tólf manna stjórn SUF:

  • Aðalheiður Björt Unnarsdóttir
  • Bjarni Dagur Þórðarsson
  • Gunnar Sær Ragnarsson
  • Hildur Guðbjörg Benediktsdóttir
  • Jóhann H. Sigurðsson
  • Karítas Ríkharðsdóttir
  • Páll Marís Pálsson
  • Snædís Karlsdóttir
  • Sveinn Margeir Hauksson
  • Sæþór Már Hinriksson
  • Tanja Rún Kristmannsdóttir
  • Thelma Harðardóttir



Fleiri fréttir

Sjá meira


×