Innlent

Vill bíða eftir niðurstöðu dómstóla í tollamáli

Höskuldur Kári Schram skrifar
Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir að dómstólar verði að skera úr um hvort lög hafi verið brotin varðandi fyrirkomulag um ákvörðun tolla á innfluttar landbúnaðarvörur. Fimm fyrirtæki hafa höfðað mál á hendur ríkinu vegna þessa og nema kröfurnar um fjórum milljörðum.

Ríkið hefur áður tapað þremur sambærilegum málum og þurfti í þeim tilvikum að endurgreiða oftekna skatta upp á samtals þrjá milljarða.

Það er Félag atvinnurekenda sem höfðar málið fyrir hönd fyrirtækjanna fimm en félagið telur að það samræmist ekki stjórnarskrá að ráðherra hafi val um að afnema eða leggja tolla á innfluttar búvörur.

Kristján Þór Júlíusson sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra segir að stjórnvöld hafi þegar brugðist við fyrri dómum með lagabreytingum og þetta mál kalli að óbreyttu ekki á sérstakar breytingar.

„Ég held að við þurfum fyrst að láta á það reyna hvort að þær ráðstafanir sem gripið var til í kjölfar síðustu dóma dugi og dómstólar skera endanlega úr um það,“ segir Kristján Þór. 

 




Fleiri fréttir

Sjá meira


×